Viðamikil kynning hjá Kiwanis á laugardaginn

Frá Kiwanisfundi í lok síðasta árs. Mynd: Berglind Þorsteins.
Frá Kiwanisfundi í lok síðasta árs. Mynd: Berglind Þorsteins.

Kiwanisklúbburinn Drangey í Skagafirði hefur ýmislegt á prjónunum nú á þessu starfsári, að sögn Ólafs Jónssonar, framámanns í klúbbnum. „Starf klúbbsins er í blóma og má segja að hið mikla átak er við stóðum fyrir á síðasta ári skili sér í góðu starfi,“ sagði hann í samtali við Feyki í gær.

Hafið er annað ár í samstarfsverkefni klúbbsins og Heilbrigðisstofnunar Norðurlands á Sauðárkróki í skimun fyrir ristilkrabbameini. „Verkefnið gengur vonum framar og er þátttaka þeirra er boðsbréf fá afar góð. Kostnaður við þetta verkefni er um 1.8 miljónir á ári,“ sagði Ólafur.

Næstkomandi laugardag verður klúbburinn með kynningarfund þar sem hann kynnir starfsemi sína og fær til liðs við sig fulltrúa frá þeim aðilum er styrktir hafa verið með einhverju móti á liðnum árum. „Hyggjumst við fá umsögn aðila um starf okkar jafnframt því sem við munum fara yfir fjáraflanir okkar og hvernig við verjum þeim fjármunum. Fáum við að því tilefni ýmis tæki og búnað frá þeim aðilum til sýnis fyrir utan fundarstaðinn að Borgarmýri 1, Gott í gogginn,“ sagði Ólafur ennfremur. Kynningarfundurinn hefst kl. 15 á laugardaginn og stendur til kl. 17.

Auk þessa segir Ólafur að áætluð sé fundarheimsókn til félaga í Kiwanisskúbbnum Herðubreið á Mývatni þann 20. febrúar næstkomandi. Það styttist síðan í marsmánuð og skipulagningu söfnunar fyrir Krabbameinsfélag Skagafjarðar. „Hefur þar ýmislegt verið til skoðunar, efst er þó á óskalistanum að vera með símasöfnun í gegnum svokölluð 900 númer og mun sú söfnun þá standa yfir í marsmánuði í tilefni mottumars,“ sagði Ólafur að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir