Vil sjá meira af trausti og virðingu á Alþingi

Bjarni Jónsson vill leiða lista Vg í Norðvesturkjördæmi
Bjarni Jónsson vill leiða lista Vg í Norðvesturkjördæmi

Bjarni Jónsson fiskifræðingur og sveitarstjórnarmaður í Sveitarfélaginu Skagafirði hefur lýst því yfir að hann gefi kost á sér til að leiða lista Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.  Bjarni hefur setið lengst allra núverandi í sveitarstjórn Svf. Skagafjarðar, eða síðan árið 2002. Feykir hitti Bjarna að máli  og spurði út í bakgrunn hans og helstu baráttumál og hvernig það kom til að hann gæfi kost á sér í landsmálin.

 

Bjarni er uppalinn í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi en faðir hans, Jón Bjarnason fv. alþingismaður er fæddur í Asparvík á Ströndum og móðir hans, Ingibjörg Sólveig  Kolka er Húnvetningur fædd á Blönduósi.  Fjölskylda Bjarna bjó í Bjarnarhöfn uns hún flutti í Skagafjörð 1981   er faðir hans gerðist skólameistari á Hólum í Hjaltadal. Bjarni er stúudent frá FNV en  lærði síðan  sagnfræði við Háskóla Íslands og lauk meistaraprófi í fiskifræði og stærðfræðilegri tölfræði frá Oregon State University í Bandaríkjunum.  Eiginkona Bjarna er Izati Zahra, og á hann eina dóttur af fyrra sambandi, Kristínu Kolku. Í dag stundar Bjarni meistaranám, með áherslu á sjálfbæra stjórnun, við Háskólann á Bifröst samhliða öðrum störfum.

Bjarni  tók virkan þátt í öllu íþróttastarfi. „Meðan ég bjó í Bjarnarhöfn en einnig hér eftir að ég kom í Skagafjörðinn og keppti ég einkum í spretthlaupum. Hápunkturinn á þeim vettvangi var formennska Landsmótsnefndar UMFÍ 2004 á Sauðárkróki.“

„Ég kenndi um tíma við ferðamáladeild og fiskieldisdeild Hólaskóla. Eftir að námi lauk kom ég hingað og var forstöðumaður Norðurlandsdeildar Veiðimálastofnunar í 12 ár. Síðan vann ég um tíma við sjávarrannsóknir hjá Biopol á Skagaströnd og í dag veiti ég forstöðu Náttúrustofu Norðurlands vestra, sem verið er að koma af stað aftur,“ segir Bjarni, aðspurður um fyrri störf. „Í vísinda-og rannsóknastarfi skiptir ekki máli hvort samstarfsverkefni svo sem við erlenda aðila eru unnin í Reykjavík eða úti á landi,“ segir hann. „Það hefur sýnt sig að þarna eru tækifæri sem þarf að nýta betur. Sömuleiðis í ýmis konar þróunar- og nýsköpunarverkefnum. Það er margt spennandi að gerast út um land allt, þó það fari ekki endilega mikið fyrir því og það þarf að hlúa betur að slíku.“ bjarni jonsson

Bjarni segist í störfum sínum að sveitarstjórnarmálum hafa kynnst hinu pólitíska landslagi vel „Þetta eru búin að vera spennandi verkefni og maður er búinn að vinna með mörgum,“ segir hann. Á undanförnum fjórtán árum hefur hann m.a. verið forseti sveitarstjórnar,  formaður skólanefndar Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og formaður landshlutasamtakanna SSNV. „Þar voru mörg og spennandi verkefni  sem kröfðust samstarfs við fleiri aðila. Ég hef lagt áherslu á að mynda góð tengsl við sveitarstjórnarfólk á öllu landinu og tel það mjög verðmætt. Við áttum t.d. mjög gott samstarf við Vestlendinga og Vestfirðinga um að koma á Strætó, þar sem við lögðum áherslu á að þetta væru samgöngur innan svæðis og fyrir svæðið en ekki bara í gegnum það,“ nefnir hann sem dæmi um þau verkefni sem hann hefur komið að. Verkefnin segir Bjarni gjarnan hafa snúið að því að berjast fyrir hagsmunum landsbyggðarinnar. „Þar hefur maður bæði verið að verja og sækja, það hefur þurft að verja það sem við höfum líka.“  

Bjarni segir það raunar vera eðlilegt framhald af þátttöku sinni sveitarstjórnarmálum að bjóða sig fram til Alþingis. „Það er ákveðin ástríða sem fylgir pólitík og margir kannast við sem vilja hafa áhrif á eigið samfélag; að fylgja málum eftir og koma góðum hlutum til leiðar. Ég er verkefnamiðaður og málafylgjumaður þegar kemur að því að koma þeim í framkvæmd. Hins vegar liggur fyrir að mörgum hlutum í héraði kemur maður ekki áfram nema með því að vinna að stjórnmálum á landsvísu og hafa áhrif á löggjöf og fjárveitingar fyrir landið allt. Mér finnst þetta vera rétti tímapunkturinn og ég tel að ég gæti ekki verið tilbúnari til að stíga þetta skref.“

Aðspurður um helstu baráttumál sín segist Bjarni vera einlægur baráttumaður fyrir byggðajafnrétti og  réttindum fólks til að geta notið þjónustu, óháð búsetu, og nefndir hann þar sem dæmi aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Þá séu samgöngur, fjölbreytt atvinna og menntun og skólastarf á landsbyggðinni honum hugleikin málefni. „Í kjördæminu  eru þrír háskólar og öflugir framhaldsskólar og framhaldsdeildir sem eru lykill að því að halda í fólkið og fá nýtt fólk í byggðirnar.  Ferðaþjónustan er í vexti og ekki má gleyma tækifærunum sem eru í öflugum landbúnaði og sjávarútvegi, t.d. í þróunarstarfi í matvælavinnslu, sem eru einkennisgreinar landshlutans,“ segir hann. Í sjávarútveginum er hvað mikilvægast að bæði veiðar og vinnsla haldist heima í byggðarlögunum og veiti þar örugga  atvinnu og verðmætasköpun. Bjarni Jonsson

Bjarni nefnir einnig að mikilvægt sé að viðhalda þjónustu á landsbyggðinni og leggja áherslu á að fjölga tækifærum fyrir ungt fólk til að búa sér líf á landsbyggðinni. „Annars hef ég tekið þátt í flokksstarfi Vinstri grænna frá upphafi og fylgt þeim grunnstefum sem þar voru lögð og höfð að leiðarljósi;  jafnrétti, náttúruvernd, fjölbreytileika og sjálfstæði.

 „Ég legg mikla áherslu á þverpólitískt samstarf og ef stefnan er ljós  tel ég að oft sé jafnvel auðveldara að semja um það sem greinir á milli og virða það og einhenda sér í sameiginleg viðfangsefni. Traust og virðing  er grundvallaratriði í pólitík og ég vil sjá meira af því á Alþingi, þvert á flokka,“ segir Bjarni Jónsson að lokum.

Viðtal: kristin@feykir.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir