Yfirlýsing frá stjórn UMSS

Aðalstjórn Ungmennasambands Skagafjarðar ákvað á fundi sínum 21. febrúar 2018 að lýsa yfir vilja félagsins, sem eins elsta íþrótta- og ungmennasambands landsins, til að eiga samstarf við ÍSÍ, UMFÍ og ráðuneyti íþróttamála um að tryggja sem best ofbeldislausa íþróttaiðkun fyrir alla. Í ályktuninni segir að aðalstjórn UMSS fagni þeirri umræðu og viðbrögðum sem #MeToo umræðan hefur leitt af sér og dáist af hugrekki þeirra einstaklinga sem stigið hafa fram fyrir skjöldu til að opinbera svo alvarleg vandamál. Að sama skapi vottar stjórnin öllum þolendum ofbeldis samúð sína.

Stjórn UMSS telur að nú sé lag að vekja upp umræðu um rétt hvers einstaklings til að setja öðrum persónuleg mörk, sama hver staða þeirra er. Það er einnig mikilvægt að hvetja fólk til að líta í eigin barm og taka ábyrgð á hegðun sinni og gjörðum.

Í ljósi þessa verður lagt fyrir 98. ársþing UMSS til samþykktar, siðareglur, jafnréttisstefna, fræðslu-og forvarnastefna og viðbragsáætlun vegna aga- eða ofbeldisbrota, eineltis, kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni sem mun ná til allra aðildarfélaga sambandsins. Með því mun UMSS og aðildarfélög þess ekki einungis marka skýra stefnu gegn kynbundnu- og kynferðisofbeldi heldur draga skýrar línur í hegðunarviðmiðum sem ná til allra þeirra sem að starfinu koma, iðkenda, þjálfara, foreldra, stuðningsmanna og stjórnarmanna. Stjórn UMSS leggur mikla áherslu á að öllum aðildarfélögum verði kynntar þessar reglur, stefnur og áætlun og þeim verði fylgt eftir.

Ályktun þess efnis, frá stjórn UMSS, verður send til UMFÍ, ÍSÍ og Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra að loknu 98. ársþingi 10. mars næstkomandi.

Virðingarfyllst fyrir hönd stjórnar UMSS

Arnrún Halla Arnórsdóttir, formaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir