Reiðsýningin á Hólum í dag

Hin árlega reiðsýning Hólanema er í dag, 20. maí. Þessi sýning hefur skapað sér sess sem hápunktur lokadagskrár hjá BS-nemum í reiðmennsku og reiðkennslu, sem nú hafa lokið öllum sínum prófum. Nemendur sýna þá í verki margt af því sem þeir hafa lært í reiðmennsku í þriggja ára námi sínu hér við skólann. Sú hefð hefur skapast að reiðkennari lýsi jafnóðum því sem fram fer, fyrir áhorfendum og hefur það mælst vel fyrir. Í lok sýningar klæðast nemarnir síðan í fyrsta skipti hinum bláu einkennisjökkum, með rauða kraganum. Og veitt eru verðlaun fyrir góðan árangur í reiðmennsku. 

Sýningin verður haldin á reiðvelli Hólaskóla og er felld inn í dagskrá hestaíþróttamóts UMSS og Skagfirðings, sem haldið er heima á Hólum um helgina - og nemarnir taka allir þátt í.

Á heimasíðu skólans segir að ef að vanda lætur munu fjölskyldur og vinir brautskráningarnemanna fjölmenna á sýninguna í dag. „En við við viljum árétta að eins og ævinlega eru allir velkomnir heim að Hólum, og veðrið nú í morgunsárið gefur fyrirheit um frábæran dag í umgjörð sem varla þarf að lýsa frekar fyrir lesendum.

Áætlað er að sýningin hefjist kl. 13:00.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir