Þeir kalla mig Kidda Gísla – Kristján Gíslason

Hver er maðurinn?
Kristján Gíslason. Yfirleitt kallaður Stjáni Gísla, nema af Geirmundi og Sigga Dodda. Þeir kalla mig Kidda Gísla.

Hverra manna ertu?
Ég er sonur Gísla Kristjánssonar og Díu Ragnars.

Árgangur?
Ég er af hinum geysivinsæla og frækna ’69 árgangi.

Hvar elur þú manninn í dag?
Ég bý í Salahverfinu í Kópavogi og uni mér vel þar.

Fjölskylduhagir?
Ég er trúlofaður handanvatnakvinnunni Elínu Gretu Stefánsdóttur, mannauðsstjóra hjá verkfræðistofunni Verkís.

Afkomendur?
Við eigum saman tvo stráka; Gunnar Hrafn 8 ára og Gabríel Mána 4 ára. Svo á ég tvö eldri börn af fyrra sambandi. Það eru Andrea 23 ára og Gísli Þráinn 19 ára.

Helstu áhugamál?
Mitt helsta og í raun eina áhugamál eru fluguveiði. Svo er ég gríðarlegur tækjanörd. Ég er hreint út sagt græjufíkill.

Við hvað starfar þú?
Í dagvinnu starfa ég sem grafískur hönnuður hjá Stafrænu prentsmiðjunni í Hafnarfirði en svo starfa ég við tónlist þess utan.

 

Hraðaspurningar, þær virka þannig að þú botnar upphaf setninga með því fyrsta sem þér dettur í hug.

Heima er... ákaflega hreint í augnablikinu.
Það er gaman að... renna fyrir silung í Bjarnarvötnum á fallegum sumardegi.

Ég man þá daga er...  hið stórkostlega Aussie hársprey fékkst bara hjá Möggu hárgreiðslu. Þetta sprey myndi líklega flokkast undir föndurlím í dag.

Ein gömul og góð sönn saga
Það hlýtur að vera í lagi að segja þessa núna. Málið er fyrnt ;)  Halldór Örn bílstjóri  hjá Kaupfélaginu í denn, var um árabil bílstjóri Herramanna. Hann keyrði okkur um á forláta Econoline bíl, sem Rúnar Gísla tengdafaðir hans átti, með myndarlega kerru í eftirdragi fyrir græjurnar. Í hljómsveitinni voru á þessum tíma Hörður G. Ólafsson, Svavar Sigurðsson, Karl Jónsson, Birkir Guðmundsson og undirritaður.

Dóri var um tíma (og er kannski enn) forfallinn skotveiðimaður. Eitt sinn er Herramenn voru á heimleið eftir ball í Víðihlíð var kall með hólkinn meðferðis. Þegar við vorum komnir í Langadalinn var komið undir morgun. Dóri sér myndarlegan gæsahóp á túni við sveitabæ einn. Hann snarhemlar og hendist út úr bílnum með byssuna, dúndrar á hópinn með tilheyrandi hávaða í morgunþögninni. Síðan stekkur hann af stað inn á túnið til að sækja bráðina. Þegar hann er á leið til baka sér hann hvar bóndinn kemur út í dyrnar á fjósinu og horfir í átt til hans. Dóri hleypur eins og fætur toga og hendir gæsum og byssu aftan í kerruna og stekkur upp í bílstjórasætið. Þar tekur Hörður á móti honum og spyr hvurn fjárann hann hafi verið að gera. Nú muni bóndinn hringja beint í lögguna og við verðum teknir um leið og við komum í Varmahlíð! Dóri horfir í forundran á Hörð og segir: Iss hann veit ekkert hverjir þetta eru!!

Ef þetta væri bíómynd þá myndi núna sjást hvar Econolinebíllinn rennur af stað með kerruna sem er kyrfilega merkt með risastöfum HERRAMENN!

Þess má geta að lögreglan beið okkar ekki við vorum ansi sneypulegir og taugatrekktir það sem eftir lifði ferðar.

Spurt frá síðasta viðmælanda.................... Hvað fór mikill tími í hárgreiðsluna á upphafsárum Herramanna?

Það gat tekið ótrúlega langan tíma. Sérstaklega ef Aussie hárspreyið var ekki til. 30 mínútur var kannski svona meðaltíminn en gat tekið miklu lengri tíma ef mikið stóð til.

Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?

Nafn: Haukur Freyr Reynisson

Spurningin er: Heldur þú að það gæti verið grundvöllur til að byggja hótel á Hofsósi með 7 manna herbergjum með partýaðstöðu?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir