Eftirvænting á Hvammstanga

Nýja gólfið bíður leiksins. Mynd: Hunathing.is.
Nýja gólfið bíður leiksins. Mynd: Hunathing.is.

Mikil eftirvænting ríkir nú á Hvammstanga og ekki að ástæðulausu því að á morgun, laugardaginn 14. október, fær Körfuknattleiksliðið Kormákur sem spilar í þriðju deild, Íslandsmeistara KR í heimsókn í 32-liða úrslitum bikarkeppni KKÍ.

Miklar endurbætur hafa átt sér stað í íþróttamiðstöðinni á Hvammstanga í sumar og verður spánýtt gólf í húsinu vígt með leik „hins áræðna og ögrandi liðs Kormáks gegn drifnu og djörfu liði KR,“ eins og segir á vef Húnaþings vestra.

Í samtali við Mbl.is á dögunum segir Guðný Hrund Karlsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, að leikur sem þessi skipti miklu máli fyrir samfélagið og verði lyftistöng fyrir íþróttina í sveitarfélaginu. „Þetta er svo mikið tæki­færi fyr­ir körfu­bolt­ann – að fá svona lið á svæðið og hitta krakk­ana sem eru að æfa,“ seg­ir Guðný sem telur lið Kormáks mjög frambærilegt þriðju deildar lið og reiknar með talsverðum fjölda áhorfenda á leikinn. Ljóst sé þó að við ramman reip verði að draga í viðureigninni við KR.

Á heimasíðu Húnaþings vestra segir að áður en flautað verði til leiks verði ýmislegt gómsætt í boði fyrir augu og eyru, jafnt ungra sem aldinna, í tilefni dagsins frá klukkan 16:15.  Leikurinn hefst kl. 17:00 og er sannarlega ástæða til að hvetja fólk til að mæta til að fagna endurbótum íþróttamiðstöðvarinnar og hvetja sitt lið til sigurs. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir