Fyrsta stigið lætur bíða eftir sér

Boltinn svífur yfir Didu í marki Stólanna og Víkingur krækir þar með í öll stigin sem í boði var. Mynd: Skjáskot af TindastollFotboltiTV
Boltinn svífur yfir Didu í marki Stólanna og Víkingur krækir þar með í öll stigin sem í boði var. Mynd: Skjáskot af TindastollFotboltiTV

Ekki náðu stelpurnar í Tindastóli að krækja í sín fyrstu stig í 1. deildinni í fótbolta á Sauðárkróksvelli í gær þegar Víkingur Ólafsvík kom í heimsókn. Þrátt fyrir færi á báða bóga kom aðeins eitt mark í leiknum sem gestirnir skoruðu. Það var snemma í leiknum, eða á 11. mínútu, sem Fehima Líf Purisevic í liði Víkings skoraði snyrtilegt mark utarlega í vítateig eftir ágætan samleik. Færið virtist ekki ýkja hættulegt en boltanum kom Fehima yfir Didu í markinu og í vinstra hornið.

Stólastúlkur hafa ekki náð að fylgja eftir góðum leik sem þær áttu á móti Pepsídeildarliðinu Fylki í deildarkeppninni en eins og kunnugt er sigraði Tindastóll með tveimur mörkum gegn einu.

  „Ég er hundfúl. Þetta er fjórði leikurinn í deildinni sem við töpum ósanngjarnt, allir leikirnir sem við höfum tapað 1-0 eru leikir sem við áttum séns í,“ segir Sunna Björk Atladóttir, leikreyndasti leikmaður Stólanna. Hún segir þær hafa skapað töluvert meira af færum en Víkingur en náðu ekki að nýta þau.

„Það sem ég get sett út á í okkar leik eru atriði eins og talandinn í liðinu þarf að vera meiri, við þurfum að þora að halda boltanum og spila í stað þess að gera bara eitthvað og varnarlega þarf liðið að vera nær mönnum og klárar að mæta þegar við verjumst en ekki selja sig auðveldlega. Svo tala ég nú ekki um að klára þessi blessuðu færi. Ég er ekki að segja að þetta hafi vantað allan leikinn, síður en svo, en þessi atriði þurfa að vera í lagi allan leikinn í þessar deild. Annars er refsað eins og við erum að fá að kynnast allsvaðalega,“ segir Sunna og bendir á að ljósi punkturinn sé líklega sá að leiðin hljóti að liggja upp á við. „Það er komið gott af tapi!“

Stelpurnar í Tindastól sitja sem fyrr stigalausar á botninum en Víkingur Ólafsfirði færði sig fjær Stólunum með sigri gærkvöldsins og hampar fjórum stigum í næst neðsta sæti. HK/Víkingur situr hins vegar á toppi 1. deildar með fullt hús stiga eða 15 stig eftir fimm sigurleiki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir