Spekingar spjalla í Moskvu

Siggi, Diego og Jolli í góðum gír í Moskvu. MYND AF FACEBOOK
Siggi, Diego og Jolli í góðum gír í Moskvu. MYND AF FACEBOOK

Það hefur örugglega ekki farið fram hjá neinum Frónbúa að Ísland og Argentína áttust við á HM í knattspyrnu í Moskvu í dag, en um var að ræða allra fyrsta leik Íslands í Heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu. Úrslitin, 1-1, komu skemmtilega á óvart þó margir hafi reyndar verið furðu bjartsýnir fyrir þessa viðureign við eina bestu knattspyrnuþjóð heims sem alið hefur ófáa yfirburðamenn í gegnum árin. Feykir tók smá rúnt um Facebook-lendur að loknum leik og rakst þá á þessa ágætu mynd af þremur snillingnum samankomnum í Moskvu.

Myndina prýða knattspyrnukempurnar Sigurður Ágústsson frá Geitaskarði í Austur Húnavatnssýslu sem lék með Hvöt og Tindastóli hér í den. Á hægri kantinum er síðan Eyjólfur Sverrisson, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands og leikmaður Tindastóls, Stuttgart, Besiktas og Herthu í Berlín en á milli þeirra er sjálfur Diego Armando Maradona sem margir telja besta knattspyrnumann sögunnar en hann er einmitt frá Argentínu. 

Þeir kappar hittust á leiknum í dag og aðspurður segir Siggi að Maradona hafi ekki kannast við Tindastól. „En [hann] kannaðist við okkur og var ánægður með baráttu Íslands og óhress með leik sinna manna, “ sagði fjallbrattur Siggi í samtali við Feyki en hann ætlar í það minnsta að ná leik Íslands og Nígeríu áður en haldið verður heim á leið.

Stemningin á leiknum í dag var svakaleg að sögn Sigga en það var Alfreð Finnbogason sem jafnaði fyrir Ísland skömmu eftir að Kun Aguero kom Argentínu yfir á 19. mínútu. Í síðari hálfleik komst síðan Hannes Halldórsson í dýrlingatölu á Íslandi eftir að hann varði víti frá sjálfum Lionel Messi. Íslenska liðið var geysilega vel skipulagt og einbeitt og snillingarnir frá Argentínu náðu ekki að skapa sér góð færi í leiknum þrátt fyrir að hafa sótt linnulítið megnið af tímanum. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir