Stólarnir á toppnum eftir sigur gegn Hetti

Helgi Margeirs og Hannes Ingi hjálpast að við að gera Kevin Lewis lífið leitt í Síkinu. MYND: ÓAB
Helgi Margeirs og Hannes Ingi hjálpast að við að gera Kevin Lewis lífið leitt í Síkinu. MYND: ÓAB

Tindastóll fékk Hött Egilsstöum í heimsókn í Síkið í kvöld en Stólarnir eru sem kunnugt er á toppi Dominos-deildarinnar en Höttur eru neðstir, höfðu ekki unnið leik í deildinni þegar þeir komu á Krókinn. Það varð svosem engin breyting á því þó svo að gestirnir hafi haft í fullu tréi við heimamenn fram að hléi í kvöld því lið Tindastóls tók öll völd í síðari hálfleik og sigraði 91-62.

Stólarnir voru án Hesters og Péturs sem báðir eru frá vegna meiðsla. Brandon Garret kom inn fyrir Hester og hann sýndi ágæta takta í kvöld, endaði stigahæstur með 25 stig og hirti 10 fráköst og var að spila töluvert betur en í fyrsta leiknum með Stólunum. Heimamenn fóru ágætlega af stað í kvöld en leikmenn Hattar voru sprækir sem lækir og héldu vel í við Stólana. Bergþór Ríkharðsson kom þeim yfir, 12-13, um miðjan fyrsta leikhluta við mikil fagnaðarlæti bekks Hattar og síðan skiptust liðin á um forystuna. Stólarnir þó yfir 24-20 eftir laglega körfu frá Helga Rafni rétt fyrir lok fyrsta leikhluta. Höttur gerði átta fyrstu stig annars leikhluta en þá fundu Caird og Arnar fjalirnar sínar en í hvert sinn sem stuðningsmenn Stólanna héldu að nú myndu strákarnir hrista gestina af sér þá komu þeir til baka. Staðan í hálfleik 45-44.

Það var augljóst að Israel Martin væri ekki ánægður með varnarleik Tindastóls þannig að hann var skrúfaður í botn í hálfleik. Stólarnir komu alveg dýróðir í þriðja leikhlutann og Arnar og Garret fóru á kostum í sóknarleiknum. Eftir fimm mínútur var staðan orðin 60-50 og smá saman molnaði undan leik gestanna og sjá mátti sjálfstraust leikmanna þeirra leka í Síkið. Stólarnir bættu reyndar aðeins við níu stigum fyrir lok leikhlutans en vörnin sá til þess að gestirnir kæmu boltanum ekki í körfuna og lið Hattar gerði því aðeins sex stig í fjórðungnum. Staðan 69-50.

Tindastólsmenn héldu áfram ágætum varnarleik í fjórða leikhluta og var nokkuð sama hvaða leikmenn komu inn á. Caird bætti stigaskorið sitt umtalsvert með nokkrum liprum gegnumbrotum og líkt og oft áður í vetur var góðum sigri landað og tvö stig í hús.

Sigtryggur Arnar var bestur í liði Tindastóls og sýndi nokkrum sinnum talsvert lystaukandi takta en hann endaði með 23 stig og fimm stoðsendingar. Garret var líka mjög góður sem fyrr segir og Caird endaði með 18 stig. Axel var algjörlega freðinn í skotunum sínum en kappinn skilaði átta fráköstum (þar af sex sóknarfráköstum) og átti fjórar stoðsendingar og þá var Viðar sömuleiðis ískaldur með sex skot í súginn. En allt liðið spilaði glimrandi varnarleik í síðari hálfleik þar sem fyrirliðinn Helgi Rafn fór fyrir sínum mönnum. Björgvin sýndi góða takta en er ansi villtur í gegnumbrotunum sínum um þessar mundir – mætti kannski einfalda hlutina aðeins.

En góður sigur í kvöld og lið Tindastóls eitt efst í Dominos-deildinni, með 14 stig að loknum átta umferðum. Lið ÍR er í öðru sæti með 12 stig en Haukar, KR, Keflavík og Njarðvík eru öllu með 10 stig. Nú tekur við tveggja vikna hlé á deildinni en næsti leikur Tindastóls verður 4. desember í DHL-höllinni þegar KR fær Króksarana í heimsókn. Það verður væntanlega eitthvað...

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir