Stólarnir taka á móti Njarðvík í kvöld

Tindastóll tekur á móti Njarðvík í 10.umferð Domino´s deildarinnar í kvöld á Sauðárkróki. Ljóst má vera að Stólarnir munu gera allt til að sigra eftir fremur slæma ferð í höfuðborgina sl. mánudag. Helgi Rafn segir að sá leikur sé búinn og nú sé bara áfram gakk.

„Mér líst bara vel á leikinn í kvöld. Menn eru klárir í verkefnið, það er bara þannig. Það er bara að fara í þennan leik og sigra, það er ekkert annað að gera,“ segir Helgi Rafn, fyrirliði Stólanna.

Christopher Caird verður ekki með í kvöld þar sem hann er enn meiddur en Helgi segir að Hester verði í búningi og það verði bara að koma í ljós hvað hann spili mikið. Helgi Freyr missteig sig í síðasta leik en nafni hans segir að engan bilbug sé á honum að heyra: „Helgi Freyr er grjótharður, hann er mættur og ekkert væl.

Eigum við eitthvað að tala um síðasta leik?

„Nei, það er búið að banna það hérna í samlaginu að tala um þann leik þar sem Vignir Kjartansson er mikill áhugamaður um að sleppa því. Þetta er bara búið og það er bara áfram gakk.“

Staðan í deildinni er þannig að ÍR og Tindastóll eru á toppnum með 14 stig en Haukar koma næstir með 12 stig ásamt KR og Keflavík. Þá kemur Njarðvík með 10 stig í 6. sæti. ÍR á erfiðan leik fyrir höndum en þeir renna í Hafnarfjörðinn og mæta þar Haukum sem hafa verið á góðu rönni.

Allir að mæta í Síkið og styðja við strákana. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir