Þriðji leikur Tindastóls og KR er að bresta á

Munum að styðja liðin fallega í kvöld.
Munum að styðja liðin fallega í kvöld.

Það er allt á suðupunkti í Skagafirði í dag en spennan er mikil fyrir þriðju viðureign Tindastóls og KR sem hefst kl. 19:15 í kvöld í Síkinu. Staðan í einvíginu er eins og allir vita 1-1 en báðir leikirnir hafa hingað til unnist á útivelli. Talsverð eftirvænting er eftir fréttum af Hesteri og Hannesi en eftir því sem Feykir kemst næst er enn ekki vitað hvort þeir verði með í leiknum í kvöld en báðir stríða við erfið ökklameiðsli.

Hester meiddist fyrst í síðasta leiknum gegn ÍR í undanúrslitum Dominos-deildarinnar og meiddist svo enn meira þegar hann spilaði fyrsta leikinn gegn KR. Hann hvíldi því í DHL-höllinni í sigurleiknum á sunnudaginn. Hannes rétt kíkti á parketið í Frostaskjólinu áður en hann snéri sig á ökkla. En það eru ekki bara Stólarnir sem hafa orðið fyrir blóðtöku því KR missti í gær Helga Magg aftur til Bandaríkjanna eftir þriggja vikna körfuboltatúr til Íslands.

Það er því gamla góða dagsformið, eljan og dugnaðurinn sem gildir í kvöld. Á Facebook-síðu körfuknattleiksdeildar Tindastóls eru áhorfendur minntir á að hvetja liðin sín á jákvæðan hátt og að það eru dómararnir sem dæma – ekki áhorfendur. Forsala miða hófst nú kl. 16:30 og áhorfendur eru hvattir til að mæta tímanlega og gæða sér á borgurunum góðu. Opnað verður í stúkuna kl. 17:45.

Áfram Tindastóll! 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir