Tindastóll og Leiknir skiptu stigunum á milli sín

Vörn Tindastóls í loftköstum á lokaandartökum leiksins. MYND: ÓAB
Vörn Tindastóls í loftköstum á lokaandartökum leiksins. MYND: ÓAB

Í gærkvöldi mættust lið Tindastóls og Leiknis Fáskrúðsfirði í 8. umferð 2. deildar karla í knattspyrnu. Leikið var á gervigrasvellinum á Króknum og varð úr hinn mesti baráttuleikur sem á köflum var ansi líflegur. Leiknismenn voru yfir í leikhléi en Stólarnir komu fjallbrattir til leiks í síðari hálfleik og komust yfir en gestirnir jöfnuðu skömmu fyrir leikslok og lokatölur því 2-2.

Tindastólsmenn fóru illa af stað í leiknum og fengu á sig slysalegt mark strax á 3. mínútu en þá fékk Povilas Krasnovskis boltann einn og óvaldaður inni á vítateig Stólanna, hann átti frekar misheppnað skot að marki en boltinn skoppaði framhjá Fernandez og í stöngina og inn. Gestirnir voru sterkari framan af leik og voru nálægt því að bæta við marki en smá saman óx Stólunum ásmegin og þeir sköpuðu sér færi eftir að senda boltann á Stefan Lamanna á hægr kantinum. Besta færi Stólanna átti síðan Bjarki Már á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar boltinn féll fyrir hann í dauðafæri en kappinn náði ekki krafti í skotið sem hann sendi beint á Winogrodzki í marki Leiknis.

Það fór að rigna í hálfleik og það virtist eiga vel við heimamenn því Lamanna jafnaði strax í upphafi síðari hálfleiks eftir laglega sókn þar sem hann skallaði boltann að marki eftir sendingu frá vinstri kanti, Winogrodzki varði boltann með tilþrifum í stöngina en Lamanna fylgdi á eftir og jafnaði leikinn. Liðin sóttu bæði í framhaldi af þessu en það voru Leiknismenn sem fengu betri færi en Fernandez var vel á verði í marki Stólanna. Það voru klárlega fleiri mörk í leiknum og Lamanna bætti við öðru marki sínu á 75. mínútur eftir snarpa sókn Tindastóls. Eftir þetta lögðu gestirnir allt í sölurnar til að jafna leikinn og það hafðist á 88. mínútu þegar Jesus Suarez náði að stanga boltann í mark Stólanna. Lokamínúturnar pressuðu Leiknismenn stíft og fengu urmul af aukaspyrnum og hornspyrnum en vörn Tindastóls hélt og liðin skiptust því á jafnan hlut þegar upp var staðið.

Ágætt stig fyrir Stólana sem sýna framfarir í leik sínum. Konni var nú kominn til baka úr meiðslum og munar um kappann. Óskar Smári og Hólmar Skúla stríða við meiðsli og þá urðu Stólarnir fyrir áfalli snemma leiks þegar Sverrir Friðriksson virtist togna og varð að fara af velli. Næstkomandi laugardag leika Tindastólsmenn við lið Fjarðabyggðar á Eskjuvelli kl. 14:00 á Eskifirði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir