Ástin er diskó – Lífið er pönk

Leikfélag NFNV frumsýndi Ástin er diskó - Lífið er pönk í Bifröst á Sauðárkróki í gær. Myndir: KSE
Leikfélag NFNV frumsýndi Ástin er diskó - Lífið er pönk í Bifröst á Sauðárkróki í gær. Myndir: KSE

Í gærkvöldi frumsýndi Leikfélag NFNV Ástin er diskó – Lífið er pönk eftir Hallgrím Helgason, í leikstjórn Guðbrands Ægis Ásbjörnssonar. Leikritið var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu árið 2008 en það fjallar, eins og nafnið bendir til, um hina ólíku heima tísku, tónlistar og lífsstíls þeirra sem aðhylltust diskó annars vegar og pönk hinsvegar.

Allt frá því ég a barnsaldri sótti mína fyrstu leiksýningu í áhugaleikhúsi hef ég helst ekki látið slíkar uppsetningar, í minni heimasveit hverju sinni, fram hjá mér fara. Ég hafði raunar lítið heyrt um þetta verk sem varð fyrir valinu enda var það í miðri annasömustu vinnuviku ársins sem ég settist niður í Bifröst til að berja það augum. Ég vissi lítið sem ekkert á hverju ég átti von, vissi ekki einu sinni fyrr en eftir á hver höfundurinn væri en kannaðist við nokkra krakka úr leikhópnum og leikstjórann. Skemmst er frá að segja að kvöldinu var vel varið við hlátur og óborganlega skemmtun.

Athygli mín var fönguð strax og sýningin hófst með hressilegu diskóatriði. Ég held að litríkir 80´s búningar gleðji alltaf hjörtu okkar sem muna eftir sjálfum sér sem þátttakendum í þessu tískuslysi síðustu aldar. Þegar pönkararnir bættust við sköpuðust skemmtilegar andstæður með vel úthugsaðri sviðsmynd og lýsingu listamannsins Guðbrands Ægis Ásbjörnssonar, sem er auðvitað á heimavelli þegar kemur að slíku. Leikmyndin er hönnuð og máluð af honum en smíðuð af nemendum fjölbrautaskólans. Búningarnir, sem að hluta til voru lánaðir af LS, og sminkið var flott og studdi vel við verkið.

Leikstjórnin ferst Guðbrandi Ægi einnig vel úr hendi og segja má að þarna hafi verið valinn maður í hverju hlutverki. Þrátt fyrir að leikstjórinn segi sjálfur í leikskrá að hann hefði verið svartsýnn á köflum virðist mér það hafa verið ástæðulaust. Ekki var annað að heyra en textakunnáttan væri góð og allir vel æfðir. Ég held raunar að flestir leikhópar upplifi tímabil á æfingaferlinu þar sem allt virðist ganga frekar hægt, en oftar en ekki smellur allt á lokametrunum. Því fylgir einstök stemning og samheldni, sem mér fannst skína frá þessum flotta hóp.

Ég tek undir þau orð leikstjórans að þaðað er gaman að sjá þá krakka sem hafa leikið áður vaxa í leikhúsinu. Leikurinn fannst mér til mikillar fyrirmyndar og erfitt að tilgreina þar einhverja umfram aðra. Til dæmis voru allir í fjölskyldu Rósu frábærir í sínum hlutverkum og óneitanlega kitlaði persónan Siggi Toppur hláturtaugarnar, sem og pönkarinn Raggi Rúnk. Einnig voru Valli Venus og Manni Mercury sannfærandi persónur sem og pönkararnir. Og það er alveg dæmalaust að allt þetta unga fólk skuli ekki víla fyrir sér að stíga á svið og syngja einsöng og dansa frumsamda dansa eins og ekkert sé. Þar langar mig sérstaklega að hrósa brosmildu diskódrottningunni sem leikin er af Helgu Sól Árnadóttur, það er alltaf svo gaman þegar fólk man eftir að brosa í svona dansatriðum.

Fólkið á bak við tjöldin gegnir mikilvægu hlutverki, ekki síst þegar þarf oft að skipta um sviðmynd. Þar tókst afar vel til. Tónlistin og atriði sem teygðu sig út fyrir sviðið héldu athygli manns á meðan og svo virtist sem allt væri alltaf að sínum stað, hvort sem var mikrófónn fyrir þá sem brustu í söng eða hinir ýmsu sviðsmunir. Í verkinu eru fjölmörg þekkt dægurlög sem eru einkennandi fyrir diskó- pönktímabilin, sum með breyttum textum og hefur þar tekist vel til. Þá samdi Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson fimm ný lög fyrir leikritið. Hann gerði einnig undirspil fyrir flest hinna laganna. Ásgeir Bragi Ægisson gerði undirspil við Hiroshima, Ég vil ekki stelpu eins og þig og Hollywood. Sigfús Arnar Benediktsson spilaði inn og tók upp Vetrarsól.

Húrra fyrir ykkur, leikhópur NFNV! Ég skora á alla að standa upp úr sófanum og kíkja í Bifröst eina kvöldstund, þeim tíma og fjármunum er vel varið!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir