Fljót er nóttin dag að deyfa

Myndir: Sigurður Þorsteinsson.
Myndir: Sigurður Þorsteinsson.

Hvert sæti var skipað á Hótelinu í Varmahlíð er á dögunum var haldin gleðisamkoma til að fagna útkomu ljóðabókarinnar „Fljót er nóttin dag að deyfa“ sem Bókaútgáfan Veröld gefur út og hefur að geyma úrval kveðskapar eftir hagyrðinginn og hestamanninn Sigurð Óskarson í Krossanesi.

Þrátt fyrir að tuttugu ár séu liðin frá andláti Sigga og allflestir samtímamenn hans gengnir þá var greinilegt að minningin lifir. Afkomendur Sigga með barnabarn hans, Sigurð Þorsteinsson, í broddi fylkingar stóðu að útgáfunni og teitinu en sveitungar, vinir og frændfólk komu til að hlýða á upplestur úr bókinni og skemmtisögur er sagðar voru af Sigga og nágrönnum hans. Ásdís á Skörðugili lýsti einlægum vinskap Dúdda föður síns og Sigga einkum sunnudagsheimsóknum þar sem hefðbundin störf töfðu ekki hrossastúss, gleðskap og útreiðar félaganna. „Og við biðum svo sem ekkert eftir pabba með kvöldmjaltirnar,“ bætti hún við.

Stundin var mörkuð hlýju endurminninganna og varpaði ljósi á lífshaup manns sem bar með sér næman skilning á líðandi stund og færði í bundið mál öðrum til hlutdeildar. Einfaldri lífsspeki þar sem veraldlegur auður var ekki markmiðið heldur mannrækt og lífsgleði.

Ég sef ekki seinnipart nætur
ef sólin á himninum skín.
Guð ekki gleyma sér lætur
og gleðina sendir til mín.

Gunnar Rögnvaldsson, Löngumýri

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir