Haförn á flugi í Húnaþingi

Haförn á flugi í Miðfirði í Húnaþingi vestra. Ljósm./BÞ
Haförn á flugi í Miðfirði í Húnaþingi vestra. Ljósm./BÞ

Þessi haförn varð á vegi blaðamanns Feykis á dögunum á ferð um Miðfjörð í Húnaþingi vestra. Hann lét eftirför blaðamanns ekki trufla sig, gaut augunum annað slagið aftur, en hélt áfram flugi sínu inn fjörðinn þar til hann hvarf inn í þokuna. Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrustofu Vesturlands er um að ræða fullorðinn fugl en undanfarin ár hafa þrjú arnarpör orpið við Húnaflóa. „Vonandi fjölgar þeim og varpútbreiðslan færist áfram til austurs,“ segir Róbert Arnar Stefánsson forstöðumaður Náttúrustofunnar. 

Haförninn er stærsti og sjaldgæfasti ránfugl landsins, oft nefndur konungur fuglanna, samkvæmt Fuglavef nams.is. Hann er auðgreindur á stærð og lögun og ferhyrndum vængjunum með ystu handflugfjaðrir vel aðskildar (fingraðar). Haförn er um 70-90 sm langur, vænghaf hans er 200 -240 sm og hann vegur um 5 kg.

„Svífur gjarnan en er þunglamalegur í flugtaki. Oft má sjá úr mikilli fjarlægð hvar örninn svífur á þöndum vængjum yfir landi eða hafi og leitar sér að bráð, eða hvar hann situr langtímum saman kyrr á sama útsýnisstaðnum. Venjulega er hann styggur og friðsamur en getur verið ágengur við hreiður,“ segir á vefnum.

Aðalheimkynni hins íslenska hafarnar er Vesturland og fylgist Náttúrustofa Vesturlands grannt með arnarstofninum. Samkvæmt heimasíðu stofnunarinnar nær varpútbreiðslan frá Faxaflóa norður á Vestfirði, þéttleiki hreiðra er langmestur í Breiðafirði en einnig nokkur við norðanverðan Faxaflóa. Stofninn er smár og er enn í útrýmingarhættu þrátt fyrir alfriðun í rúm 90 ár eða frá því Íslendingar friðuðu örninn fyrstir þjóða árið 1913.

Á seinni hluta 19. aldar var stofninn mun stærri, sennilega 150-200 pör, og verpti víða um land en vegna skotveiða og eitrunar fyrir refi varð gífurleg fækkun. Um 1920 voru pörin einungis 20-25 og breyttist sá fjöldi lítið næstu áratugi. Eftir 1970 tók stofninn loks að rétta úr kútnum og hefur örnum fjölgað mjög hægt síðan. Á vefnum segir að varpárangur íslenska arnarstofnsins sé mun lakari en hjá öðrum stofnum og leitar rannsókn Náttúrustofunnar skýringa á því.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir