Myndir frá afhendingu veglegrar peningagjafar til HSN á Sauðárkróki

Formenn 10. bekkjar Árskóla, Alexandra Ósk Guðjónsdóttir og Róbert Smári Gunnarsson, afhentu fulltrúum HSN á Sauðárkróki söfnunarféð. Ljósm./BÞ
Formenn 10. bekkjar Árskóla, Alexandra Ósk Guðjónsdóttir og Róbert Smári Gunnarsson, afhentu fulltrúum HSN á Sauðárkróki söfnunarféð. Ljósm./BÞ

Á Árskóladaginn, 24. október sl., stóðu nemendur og starfsfólk Árskóla fyrir opnu húsi í skólanum. Sýndur var afrakstur þemadaga, nemendur seldu einnig ýmsar vörur sem þeir höfðu útbúið og seldu kaffi og meðlæti í kaffihúsi. Fjöldi manns lagði leið sína í skólann þennan dag og heppnaðist dagurinn afar vel. Alls söfnuðust kr. 435.003,- og var söfnunarféð afhent í íþróttahúsinu föstudaginn 30. október.

Líkt og segir á forsíðu Feykis sem kom út í síðustu viku mættu Örn Ragnarsson, Herdís Klausen og Þorsteinn Þorsteinsson fyrir hönd Heilbrigðisstofnunarinnar og tóku við ávísuninni að viðstöddum nemendum og starfsfólki. Örn Ragnarsson yfirlæknir þakkaði fyrir þessara rausnarlegu gjöf og sagði hana nýtast í kaup á nýju ómtæki.

„Ég hugsa að flestar eða allar mæður í dag fari í svona ómtæki, til að láta fylgjast með barninu í maganum og á meðan þið kúrðu þar þá voru þið fyrst skoðuð í svona tæki. Ég ítreka það að svona miklir peningar skipta okkur miklu máli og við erum afar þakklát fyrir það,“ sagði Örn. Loks minnti hann á að það þurfi að endurnýja fleira en bara tæki, líka mannskap.

„Hann bilar stundum og stundum hverfur hann á braut. Þá þarf á góðu fólki að halda og ég vona að ykkur gangi vel í skólanum og í ykkar starfi og leik og minni ykkur á það að okkur vantar alltaf fólk upp eftir, á sjúkrahúsið og á heilsugæsluna í ýmis störf.“

Hér eru nokkrar myndir sem teknar voru við athöfnina. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir