Laugardagsrúntur í Húnaþingi vestra

Kolugljúfur. MYNDIR: ÓAB
Kolugljúfur. MYNDIR: ÓAB

Það var hið ágætasta veður í gær á Norðurlandi vestra og þar sem það var laugardagur í verslunarmannahelgi þótti blaðamanni Feykis tilhlýðilegt að fara einn vænan rúnt í Húnaþing vestra. Fjölmargir voru á ferðinni og flestir sennilega með tröllklettinn Hvítserk sem einn af helstu skoðunarstöðunum norðan heiða.

Ferðin hófst á því að ekið var inn Víðidalinn og kíkt í Kolugljúfur en þar ku tröllkona að nafni Kola hafa búið um sig. Gljúfrið er hrikalegt og magnað og kannski einn af þessum stöðum sem kalla má illa varðveitt leyndarmál rétt við þjóðveg 1. Það er þó vissara að vera ekki með neinn æsing og læti þegar Kola er heimsótt því gljúfrið er djúpt og þverhnípt.

Næst lá leiðin í vegasjoppuna Víðihlíð þar sem fjárfest var í ísköldu Pepsi Maxi og stefnan síðan tekin á Vatnsnesið og ákveðið að fara frá austri til vesturs og öfugan sólargang í þokkabót. Það hefur ekki farið framhjá mörgum að vegurinn um Vatnsnesið er engin hraðbraut, oftar en ekki yfirfullur af hraðahindrunum frá „náttúrunnar hendi“ ef svo mætti komast að orði. Vegagerðin hefur þó að líkindum sett landsmet í gerð útskota á þessum vegi og í umferðinni í gær voru þau óspart notuð og vegfarendur velflestir fegnir þeim. Þau voru í það minnsta óspart notuð. Helst að rútubílar æddu óhikað áfram og skildu eftir sig rismikla rykmekki.

Við slepptum því að heimsækja Borgarvirki en á þeim slóðum er gaman að sjá að sumarbústaðaspretta virðist vera með besta móti þessi misserin og víða má sjá gróðurvinjar í nágrenni þeirra og ekki virðist sprettan verri í þeim. Ósar eru magnaður áningarstaður þar sem má finna sjaldgæfa þjónustumiðstöð þar sem ferðamenn voru í nær sunnlenskum fjölda. Og rétt norðan við Ósa er hægt að leggja leið sína niður að nýlegu bílastæði og stíg sem liggur að útsýnispalli ofan Hvítserks. Nóg var af fólkinu sem rölti í sólinni og norðanvindinum og virti fyrir sér steingert tröllið sem ku hafa haft búsetu í Bæjarfelli á Ströndum.

Áfram lá leiðin og holunum fjölgaði og meðalhraðinn minnkaði nokkuð. Nú fór að bera á ferðamönnum sem vildu sjá seli og fugla og heldur virkar Vatnsnesið harðgerðara vestanmegin en austan. Á Hvammstanga var rennt niður að Selasetrinu og síðan bætt á tankinn á veitingastaðnum Sjávarborg þar sem maturinn er frábær og útsýnið magnað. Hvammstangi er hlýlegur og snyrtilegur bær og þangað er gott að koma.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir