Ófá handtökin við endurnýjað og glæsilegt húsnæði

Jónína Gunnarsdóttir ávarpar gesti við formlega opnun Iðju við Sæmundarhlíð. Myndir: BÞ
Jónína Gunnarsdóttir ávarpar gesti við formlega opnun Iðju við Sæmundarhlíð. Myndir: BÞ

Á fimmtudag í síðustu viku fór fram formleg opnun Iðju við Sæmundarhlíð. Fjölmargir komu til að skoða nýuppgert húsnæðið, sem áður hýsti Leikskólann Furukot, og samglöddust með starfsfólki og skjólstæðingum Iðju.

Í máli Stefáns Vagns Stefánssonar, formanns byggðarráðs Svf. Skagafjarðar, kom fram að þau voru ófá handtökin við að gera húsið fínt en það hafði staðið autt frá árinu 2010. Framkvæmdir hófust í júní á síðasta ári og var endanlegur kostnaður við endurbætur áætlaður um 50 milljónir króna. Hann sagði að ekkert hefði verið til sparað varðandi aðgengi og hefur hönnun og framkvæmd verið unnin í nánu samráði við notendur húsnæðisins.

Húsið hefur verið algjörlega endurnýjað; ný aðkoma og hluti af lóð lagfærð, rafmagnslagnir, hita- og neysluvatnslagnir endurnýjaðar, miðrými opnað, hiti í gólfum að stórum hluta og snjóbræðsla í stétt, ný gólfefni og nýjar loftaklæðningar. Stefán hafði fengið spurnir af því að fjarlægja þurfti ótal hefti úr eldri loftklæðningu og var það ærið verk. Hann spurði Eirík Pétursson hjá Eignarsjóði Svf Skagafjarðar, sem hafði umsjón með verkinu, hve mörg þau hafi verið. Eiríkur svaraði að þau hefðu verið hvorki fleiri né færri en 15 þúsund talsins.

Auk Eiríks höfðu Ágúst Eiðsson, Guðmundur Þór Guðmundsson og Ingvar Gýgjar Sigurðarson umsjón með verkinu. Helstu undirverktakar voru; Þórður Hansen ehf og K-Tak ehf við framkvæmdir á lóð; Hörður Ólafsson pípulagnameistari; Rafsókn ehf rafvirkjameistari; Jón Svavarsson málarameistari; Rúnar Ingólfsson dúklagningameistari og Hendill ehf. múrarameistari.

 Við tilefnið framkvæmdi Jónína Gunnarsdóttir forstöðumaður Iðju táknrænan gjörning. Saumaður hafði verið litríkur taupoki til að fanga tíðræddan góðan anda, sem ríkt hefur í Iðju við Aðalgötu, og við mikinn fögnuð viðstaddra var honum sleppt í hinu nýja húsnæði. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir