Sæluvikan sett formlega í gær

Gunnsteinn Björnsson, formaður atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar Svf. Skagafjarðar setti Sæluviku Skagfirðinga 2017. Mynd: PF.
Gunnsteinn Björnsson, formaður atvinnu-, menningar- og kynningarnefndar Svf. Skagafjarðar setti Sæluviku Skagfirðinga 2017. Mynd: PF.

Sæluvika Skagfirðinga var formlega sett í Safnahúsi Skagfirðinga í gær að viðstöddu fjölmenni. Meðal annars voru veitt samfélagsverðlaun Skagafjarðar, tónlistaratriði, úrslit vísnakeppni kynnt og opnun sýningar á verkum Hannesar Péturssonar og Jóhannesar Geirs.

Samfélagsverðlaun voru veitt í fyrsta skiptið á Sæluviku í fyrra og þykir gott framtak en þá var það Stefán Pedersen sem þau hlaut. Að þessu sinni var það hinn kunni fræðimaður á Sjávarborg, Kristmundur Bjarnason, sem viðurkenninguna fékk og vel að þeim kominn eftir áratuga vinnu sína að skagfirskum fræðum. Kristmundur, sem fagnaði 98 aldursári fyrr á þessu ári, átti ekki heimangengt en dóttir hans, Heiðbjört, tók við viðurkenningunni fyrir hans hönd af Ástu Pálmadóttur sveitarstjóra.

Úrslit vísnakeppninnar voru upplýst en þar átti Magnús Geir Guðmundsson á Akureyri besta botn að mati dómnefndar.

Vorið fyllir vitin mín
vangann strýkur blærinn.
Fegurst er vor fjallasýn
og fallegastur bærinn.

Bestu vísuna átti svo brottflutti Skagfirðingurinn Ingólfur Ómar Ármannsson.

Bera gnægð á Bragavöll
búnir kostum flestum.
Tengjast þeirra afrek öll
ástum söng og hestum.

Meðal annarra atriða lék Þórólfur Stefánsson á gítar og hinn ungi Jón Pálmason, sem stóð uppi sem sigurvegari í Stóru upplestrarkeppninni í vetur, fór með ljóð Hannesar Péturssonar Bláir eru dalir þínir, og fórst honum það vel úr hendi.

Í lokin var viðstöddum boðið upp á kaffi og tertu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir