Sæluvikustemning í Síkinu á Árið er – Lögin sem lifa

Allir komnir á svið í lokalaginu, Hamingjan er hér, og það var auðvitað kórrétt. MYND: PIB
Allir komnir á svið í lokalaginu, Hamingjan er hér, og það var auðvitað kórrétt. MYND: PIB

Það var vel lagt í stórviðburð Sæluvikunnar að þessu sinni en Viðburðaríkt, með Áskel Heiðar og Sigurlaugu Vordísi í fararbroddi, stóð fyrir uppsetningu á tónlistarveislunni Árið er – Lögin sem lifa í íþróttahúsinu á Sauðárkróki nú á föstudagskvöldið. Í boði var fjölbreyttur skammtur af vel þekktum dægurlögum frá síðustu fjórum áratugum og voru söngvarar í miklu stuði, umgjörðin stórkostleg og sannkölluð Sæluvikustemning ríkti í Síkinu.

Stórhljómsveit hússins með Magna Ásgeirs í fararbroddi var öryggið uppmálað og söngvarar fóru á miklum kostum, studdir öflugum bakröddum þegar það átti við. Rúllað var í gegnum vel á þriðja tug laga og hitnaði vel í kolunum þegar leið á kvöldið. Ekki síst átti Róbert bakari Óttarsson sterka innkomu, en kappinn söng Skítamóralssmellinn Farinn og Pallahittarann Það geta ekki allir verið gordjöss af öryggi og krafti og þusti fólk á lappir og hóf að dansa framan við sviðið. Sigga Beinteins kann þennan leik líka upp á 10+ og geislar alltaf af gleði. Meðal laga sem hún söng og hittu í vinkilinn voru gömlu Stjórnarsmellirnir Ég lifi í voninni og Eitt lag enn, sem hún og Ellert Jóhanns blöstuðu í blálokin. Ellert tók t.d. Rómeó og Júlíu Bubba Morthens og Ég er á leiðinni ásamt Magna og Siggunum. Sigríður Thorlacius glímdi mest við rólegri lög og söng þau frábærlega eins og hennar var von og vísa. Hún tók m.a. Grafíkurlagið Tangó og Önnur sjónarmið sem Edda Heiðrún Backman gerði vinsælt í eitís.

Sigvaldi Gunnars renndi sér af öryggi í gegnum lög á borð við Nú er ég léttur og Horfðu til himins Nýdanskra. Hann spólaði sig einnig í gegnum Stuðmannasyrpu ásamt Ellerti, Bergrúnu Sólu og Malen Áskelsdætrum Heiðars og Völu Báru. Þær systur sungu sig undurljúft inn í hjörtu gesta þegar þær tóku Vegbúa KK og Ekkert breytir því sem Sálin hans Jóns míns gerði heimsfrægt á sveitaballarúntinum á síðustu öld. Sigurlaug Vordís var mest í bakröddum, ásamt Aldísi Fjólu Borgfjörð Ásgeirsdóttur, en hún gerði sér þó lítið fyrir og stökk í skó Bjarkar í lagi Sykurmolanna, Hit. Þar fór Magni einnig í óhefluð raddbönd Einars Sykurmola en Magni þrusaði síðan meðal annars lögin Spenntur (Á móti sól) og Yfirgefinn (Valdimar) af fítonskrafti yfir gesti og gangandi.

Síðasta lag fyrir uppklapp var síðan Hamingjan er hér sem Jónas Sig og Ritvélar framtíðarinnar sungu inn í þjóðarsálina fyrir nokkrum árum. Þá komu allir söngvararnir á svið og kyrjuðu saman. Að tónleikum loknum var síðan slegið upp dansleik í íþróttahúsinu.

Umgjörð tónleikanna var stórglæsileg. Króksararnir og bræðurnir, Adam Smári og Agnar Hermannssynir, höfðu veg og vanda af sviðsmynd og hljóði og ljósasjó þeirra var geðveikt flott og einkar vel hannað. Stundum trufla ljósin gesti en því var ekki fyrir að fara að þessu sinni. Hljóð var pottþétt og þá voru myndskeið, frásögn og viðtöl, sem birt voru á tveimur risatjöldum sitt hvorum megin við sviðið, skemmtileg og vel heppnuð tenging milli laga.  Innslögin voru unnin af þeim sömu og færðu okkur útvarps- og sjónvarpsþættina Árið er.

Það var ekki annað að sjá og heyra en að gestir á Árið er – Lögin sem lifa hafi verið kampakátir með kvöldið og físir örugglega í annan skammt að ári.

Myndirnar hér að neðan tóku Pétur Ingi Björnsson og Óli Arnar Brynjarsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir