„Skemmtilegasta liðið án efa frá Blönduósi“

„Eitt skemmtilegasta liðið kom án efa frá Blönduósi, en það er hópur fólks sem kallar sig Blauta sundhópinn, en þau hittast til að synda og ræða bækur í heita pottinum.“
„Eitt skemmtilegasta liðið kom án efa frá Blönduósi, en það er hópur fólks sem kallar sig Blauta sundhópinn, en þau hittast til að synda og ræða bækur í heita pottinum.“

Íbúar Blönduósbæjar áttu góðu gengi að fagna í landsleiknum Allir lesa og höfnuðu í sjötta sæti þegar horft var á lestur eftir búsetu, samkvæmt fréttatilkynningu. Meðallestur þátttakenda í sveitarfélaginu voru rúmir 17 klukkutímar á fjögurra vikna tímabili.

Samkvæmt fréttatilkynningunni bættist fjöldi nýrra lesenda í hóp þeirra sem tóku þátt í fyrstu keppninni árið 2014. Á þeim fjórum vikum sem leikurinn stóð skráðu 1.802 einstaklingar í 237 liðum alls lestur upp á um 54.800 klukkustundir, sem samsvarar ríflega sex árum af samfelldum lestri. Alls voru 4.586 nýjar bækur skráðar á vefinn en gagnagrunnur hans vex sífellt og telur nú tæplega 15.000 íslenskar og erlendar bækur.

„Vestmannaeyingar hófu leik af miklu kappi, enda vildu þeir verja sigurinn frá því síðast. Strax í byrjun veittu Blönduósingar Eyjamönnum harða samkeppni en þegar halla fór á seinni hlutann reyndust öflugustu lestrarhestarnir koma frá sveitarfélaginu Ölfus en þar var meðallestur 26 klukkutímar. Eins og í fyrra hafnaði Hveragerði í öðru sæti en Vestmanneyingar fylgdu á eftir í því þriðja. Eitt skemmtilegasta liðið kom án efa frá Blönduósi, en það er hópur fólks sem kallar sig Blauta sundhópinn, en þau hittast til að synda og ræða bækur í heita pottinum,“ segir í tilkynningunni. 

Þess má geta að Skagafjörður var 40. sæti, Húnaþing vestra kom þar fast á eftir í 41. sæti og  Húnavatnshreppur í 57. sæti. 

„Þótt landsleiknum 2016 sé nú formlega lokið geta allir nýtt sér áfram vefinn allirlesa.is og haldið þar sína persónulegu lestrardagbók. Vefurinn er öllum opinn allt árið um kring og er skemmtileg leið fyrir alla að halda utan um lestrarvenjur sínar. Landsleikur í lestri fer svo aftur fram að ári,“ segir loks í tilkynningunni. Aðstandendur landsleiksins eru Miðstöð íslenskra bókmennta og Reykjavík Bókmenntaborg.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir