Stólastúlkur léku topplið Einherja grátt á Sauðárkróksvelli í kvöld

Jesse Shugg skorar fyrsta mark leiksins en hún gerði tvö mörk í kvöld.  MYND: ÓAB
Jesse Shugg skorar fyrsta mark leiksins en hún gerði tvö mörk í kvöld. MYND: ÓAB

Kvennalið Tindastóls fékk Einherja frá Vopnafirði í heimsókn í C-riðli 1. deildar kvenna í kvöld. Tindastólsstúlkurnar áttu góðan leik og var sigurinn öruggur en þegar upp var staðið höfðu þær gert sex mörk á meðan gestirnir áttu varla eitt einasta færi.

Leikurinn hófst kl. 18 og spilaði lið Tindastóls undan norðan strekkingi. Til að gera langa sögu stutta þá ógnuðu gestirnir aldrei í fyrri hálfleik en lið Tindastóls fékk mörg ágæt færi. Fyrsta markið kom strax á 9. mínútu og það gerði Jesse Shugg af harðfylgi. Jesse er feykiöflugur leikmaður; eldsnögg, áræðin og með gott auga fyrir að spila boltanum hratt. Hugrún Pálsdóttir var næst til að skora, fylgdi vel eftir á fjærstöng og kassaði boltann í markið á 27. mínútu. Kolbrún Hjaltadóttir gerði síðan laglegt mark eftir góða sókn á 38. mínútu og þremur mínútum síðar bætti Jesse við öðru marki sínu. Staðan 4-0 í hálfleik og ekki líklegt að gestirnir gerðu Stólastúlkum einhvern óskunda í þeim síðari, þó þær léku undan vindi.

Það kom á daginn. Leikurinn jafnaðist þó talsvert og gestirnir reyndu að pressa en Stólastúlkur komust fljótlega upp á lagið með að spila boltanum út úr vörninni í stað þess að negla upp í vindinn. Það var helst að lið Einherja reyndi að nýta sér aukaspyrnur og skjóta á mark Tindastóls. Það var þó aðeins einu sinni sem Charlotte Ferguson í markinu þurfti að taka á honum stóra sínum og varði með glæsibrag. Á 76. mínútu gerði Bryndís Rut Haraldsdóttir fimmta mark Tindastóls eftir góða sendingu frá Hugrúnu en Bryndís var þá nýkomin inná og skoraði með sinni fyrstu snertingu. Það var síðan Vigdís Edda Friðriksdóttir sem rak smiðshöggið á leik Tindastóls þegar hún gerði sjötta markið í uppbótartíma.

Flottur sigur hjá stelpunum sem spiluðu vel. Þær voru kannski aðeins of óþolinmóðar í byrjun en sýndu í síðari hálfleik að þær voru fullfærar um að láta boltann ganga. Á miðjunni voru Ólína Sif Einarsdóttir og Kasey Wyer mjög sterkar og vörnin komst mjög vel frá sínu og kæfðu alla sóknartilburði gestanna í fæðingu.

Þrátt fyrir að hafa nú tapað öðru sinni í sumar gegn liði Tindastóls eru stelpurnar í Einherja á toppi C-riðils með 13 stig en þær hafa reyndar spilað þremur leikjum meira en lið Tindastóls sem er í fjórða sæti sem stendur, með níu stig að loknum fjórum leikjum. Leikirnir hjá Stólastúlkum kom þétt og hratt á næstunni en liðið leikur sex leiki á átján dögum og hefst leikjahrinan þann 10. ágúst. Það verður spennandi að fylgjast með liðinu í þeim leikjum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir