„Víðidalstungubók“ komin heim

Frá afhendingu norsku útgáfunnar í Víðidalstungukirkju: Á myndinni eru talið frá vinstri: Hallvard T. Björgum fiðluleikari frá Noregi, Torgrim Titlestad prófessor við Stafangerháskóla og forsvarsmaður útgáfunnar, Bård Titlestad forstjóri SagaBok, Ólafur B. Óskarsson, bóndi í Víðidalstungu,Sigrún Þórisdóttir, formaður sóknarnefndar kirkjunnar og sr Guðni Þór Ólafsson prófastur á Melstað. Fremst situr Jan Henrik Ihlebæk útvarpsmaður frá norska ríkisútvarpinu, en bæði útvarps- og blaðamenn frá Noregi voru með í för. Mynd: Sigríður Ólafsdóttir.
Frá afhendingu norsku útgáfunnar í Víðidalstungukirkju: Á myndinni eru talið frá vinstri: Hallvard T. Björgum fiðluleikari frá Noregi, Torgrim Titlestad prófessor við Stafangerháskóla og forsvarsmaður útgáfunnar, Bård Titlestad forstjóri SagaBok, Ólafur B. Óskarsson, bóndi í Víðidalstungu,Sigrún Þórisdóttir, formaður sóknarnefndar kirkjunnar og sr Guðni Þór Ólafsson prófastur á Melstað. Fremst situr Jan Henrik Ihlebæk útvarpsmaður frá norska ríkisútvarpinu, en bæði útvarps- og blaðamenn frá Noregi voru með í för. Mynd: Sigríður Ólafsdóttir.

Flateyjarbók er nú að koma út á norsku í fyrsta skipti. Er útgáfan afar vegleg og hefur enda hlotið fádæma góðar undirtektir meðal Norðmanna. Það var stórbóndinn Jón Hákonarson í Víðidalstungu sem upphaflega lét gera bókina og kostaði hana, en skrifarar hennar voru prestarnir Magnús Þórhallsson og Jón Þórðarson.

Hin upprunalega Flateyjarbók er talin ein mesta gersemi íslenskra handrita, enda afar stór og mikið í hana lagt. Það er Saga Bok í Stafangri sem gefur norsku bókina út en ýmsa aðstoð við verkið hefur veitt Lærdómssetrið á Leirubakka í Landsveit, sem hefur meðal annars verið í samstarfi við Háskólann í Stafangri og fleiri stofnanir um rannsóknir á sameiginlegri sögu Noregs og Íslands.

Norska útgáfan er ríkulega myndskreytt nýjum myndum eftir myndlistamanninn Anders Kvåle Rue, enda er ætlunin að ná til nýrra lesenda með nútímalegri útgáfu. Komin eru út tvö bindi, hvort um sig tæplega 500 síður, bundin í skinn, en samtals verða norsku bindin sjö talsins. Flateyjarbók kom síðast út á Íslandi árin 1944 – 1946 í fjórum bindum.

„Margir hafa sagt, bæði í gríni og alvöru, að Flateyjarbók ætti með sönnu að heita „Víðidalstungubók“ þar sem bóndinn í Víðidalstungu lét gera hana. - Sumir telja aftur að hún mætti allt eins heita „Þingeyraklaustursbók“ þar sem líklegt sé að þar hafi hún verið unnin að mestu,“ sagði Anders Hansen, framkvæmdastjóri Lærdómssetursins á Leirubakka, í samtali við Feyki í gær. „En Flateyjarbók er hún nefnd vegna þess að hún var síðast geymd í Flatey á Breiðafirði áður en hún fór til Kaupmannahafnar.“

„Norsku útgefendunum fannst þess vegna tilvalið að fara í eins konar pílagrímsferð norður í Húnaþing með bókina og skipulagði Lærdómssetrið á Leirubakka þá ferð. Voru tvö fyrstu bindin af norsku útgáfunni afhent bæði kirkjunni í Víðidalstungu og Þingeyrakirkju við hátíðlegar athafnir,“ sagði Anders ennfremur. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir