Fjölbreytt starf í boði fyrir eldri borgara og öryrkja á Blönduósi og nágrenni

Margvíslegt félagsstarf er í boði í Hnitbjörgum. Mynd: FE
Margvíslegt félagsstarf er í boði í Hnitbjörgum. Mynd: FE

Félags- og tómsundastarf aldraðra á Blönduósi býður eldri borgurum og öryrkjum að koma og stunda félags- og tómstundastarf í kjallara Hnitbjarga, Flúðabakka 4, á mánudögum og fimmtudögum klukkan 14-17. Þjónustan, sem rekin er af Blönduósbæ, stendur til boða fyrir öryrkja og alla þá sem náð hafa 60 ára aldri og búsettir eru á Blönduósi og í Húnavatnshreppi.

Salnum í Hnitbjörgum er skipt upp í tvennt, í öðrum hlutanum er lögð stund á fjölbreytta handavinnu af ýmsum toga, púsl og fleira og getur hver og einn haft eigin handavinnu meðferðis. Í hinum salnum er spiluð vist, bridge, lomber og hvað sem hugur stendur til. Þeir sem spila finna sér spilafélaga og koma sér upp spilahóp. Klukkan 15:30 er drukkið kaffi sem hver og einn greiðir fyrir. Einnig er ekkert því til fyrirstöðu að fólk komi og kaupi sér kaffi og spjalli í leiðinni við skemmtilegt fólk.

Í tilkynningu frá félags- og tómstundastarfi aldraðra segir: „Tómstundir er mikill og stór þáttur í okkar daglega lífi. Einstaklingum er bæði hollt og gott að hafa eitthvað fyrir stafni og ekki síst fyrir þá sem eru hættir að vinna. Félagsstarf er kjörinn vettvangur til að finna verkefni við hæfi hvers og eins. Það er okkur öllum nauðsynlegt að eiga afþreyingu og rjúfa félagslega einangrun. Það eykur andlega og líkamlega vellíðan.“

Boðið er upp á akstur á svæðinu og er hægt að hafa samband við Sigfús Óla Sigurðsson í síma 899-6148. Stjórnandi félagsstarfsins er  Sigríður H. Bjarkadóttir en hægt er að hafa samband við hana í síma 452-4914 eða á sisab@blonduos.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir