Jónsmessuhátíð á næstu grösum

Hin árlega Jónsmessuhátíð á Hofsósi verður haldin dagana 16.-17. júní nk. og að vanda stendur mikið til. Dagskráin hefst með Jónsmessugöngu en að þessu sinni verður gengið frá Stafnshóli um Axlarveg niður á þjóðveginn við Miðhús.

Margir fastir liðir eru á dagskránni. Má þar nefna hina sívinsælu kjötsúpu sem félagar í Félagi eldri borgara á Hofsósi framreiða af tærri snilld. Kvöldvakan er á sínum stað á föstudagskvöldi þar sem meðal annarra koma fram Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir, sem er landsmönnum að góðu kunn úr Voice, Leikfélag Hofsóss og Þórhildur Reynisdóttir sem leikur á píanó. Á eftir leika Þórunn og Halli fyrir dansi.

Á laugardag verður myndasýning, knatttspyrnumót, dráttarvélaakstur, grillveisla og tjaldmarkaður svo eitthvað sé nefnt ásamt metnaðarfullri dagskrá fyrir börnin. Meðal dagskrárliða sem ekki hafa skipað sér eins fastan sess og margir aðrir er t.d. að nokkrir gestrisnir íbúar munu bjóða heim í morgunkaffi og eins verður nú varðeldur og brekkusöngur í Kvosinni þar sem Raggi og Rúnar Páll munda gítarana.

Hljómsveit kvöldsins sér svo um að setja lokapunktinn á hátíðina á laugardagskvöldið með stórdansleik í Höfðaborg.

Þetta er í 15. sinn sem Jónsmessuhátíðin er haldin á Hofsósi og hefur hún jafnan verið vel sótt og lukkast vel.

Nánar má kynna sér dagskrána á Facebooksíðu Jónsmessuhátíðar. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir