Lífið er núna - Leiklistardeild Höfðaskóla setur upp leikrit í fullri lengd

Leiklistardeild Höfðaskóla á Skagaströnd frumsýnir í kvöld, miðvikudag 9. maí, klukkan 20:00 gamanleikinn Lífið er núna í Fellsborg á Skagaströnd. Leikritið heitir á frummálinu You Can’t Take It With You og var skrifað árið 1936 af þeim George S. Kaufman og Moss Hart. Það hefur verið sýnt áratugum saman í Bandaríkjunum og verið með vinsælustu verkum þar úti fyrir skólauppsetningar. Ástrós Elísdóttir þýddi verkið en að hennar sögn hefur það ekki verið sýnt oft hér á landi þó það hafi verið þýtt á íslensku fyrir 63 árum síðan og hafi orðið úr hjá leikhópnum að nýta ekki þá þýðingu heldur ráðast í nýja. 

Leikritið segir frá fjölskyldu Marteins Kvaran sem lifir áhyggjulausu lífi í New York á fjórða áratug síðustu aldar en lífsstíllinn stingur í stúf við venjur á þeim tíma. Þegar yngsta dóttirin, Lísa, hefur hug á að trúlofast syni kaupsýslumanns, Tomma Waage, reynir á hvort hinar ólíku fjölskyldur geti samlagast. Auk fjölskyldumeðlima blandast ýmsar persónur í málið og meðal annars koma við sögu sprengjur og flugeldar, drukkin leikkona, slöngur, Skattinnheimta ríkisins, rússneskur ballettkennari, rannsóknarlögreglan, flámæltur gullgrafari og stórhertogaynja.

Þetta er í þriðja sinn sem leiklistardeild Höfðaskóla setur upp leiksýningu að vori og fara allir nemendur 8.-10. bekkjar með hlutverk í sýningunni. Sem fyrr er það Ástrós Elísdóttir sem leikstýrir en áður hefur hún sett upp með Höfðaskóla söngleikina Allt er nú til og Mamma Mia og hlutu þeir frábærar viðtökur.

Sem fyrr segir er frumsýning í kvöld klukkan 20:00 og önnur sýning verður á föstudag, 11. maí, einnig klukkan 20:00. Miðaverð er 2.000 krónur fyrir fullorðna og 1.000 krónur fyrir grunnskólanema. Einungis er tekið á móti reiðufé.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir