Sjómannadagsgleði á Hofsósi

Margt var sér til gamans gert á Hofsósi í tilefni sjómannadagsins. Mynd: FE
Margt var sér til gamans gert á Hofsósi í tilefni sjómannadagsins. Mynd: FE

Á Hofsósi var sjómannadagurinn  haldinn hátíðlegur að vanda í gær. Björgunarsveitin Grettir stóð fyrir heilmikilli dagskrá en hún hófst með helgistund sem haldin var í skjóli frá napurri norðangjólunni við Veitngastofuna Sólvík. Sr. Halla Rut Stefánsdóttir leiddi athöfnina og kirkjukórinn söng við undirleik Stefáns Gíslasonar. Að helgistund lokinni lagði Sonja Finnsdóttir blómsveig að minnisvarða látinna sjómanna.

Þá var haldið niður að höfn og þótt veðrið væri fremur kalsalegt kom það ekki í veg fyrir að hátíðahöldin væru vel sótt og ungir og aldnir skemmtu sér hið besta. Keppt var í ýmsum hefðbundnum greinum: dorgveiði, koddaslag, kararóðri og stakkasundi. Þá var ný keppnisgrein kynnt til sögunnar sem til að sjá líktist því að hlaupið væri á vatni. Svo var þó ekki þegar betur var að gáð, heldur hlupu keppendur eftir braut sem lögð var úr vörubrettum en á miðri leið þurfti að klöngrast yfir fiskikar sem þar var í veginum.

Að keppnisgreinum loknum var boðið í skemmtisiglingu og lauk svo dagskránni með kaffisölu Slysavarnardeildarinnar Hörpu. Þar voru veitt verðlaun fyrir frammistöðu í keppni dagsins, flestir fengu verðlaunapening en í stakkasundi er keppt um farandbikar. Hann hlaut Ásgrímur Þór Kjartansson, að þessu sinni til eignar, en þetta er þriðja árið í röð sem hann fer með sigur af hólmi í greininni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir