Þorrinn gengur í garð

Frá þorrablóti á Skagaströnd á síðasta ári. Mynd: James Kennedy.
Frá þorrablóti á Skagaströnd á síðasta ári. Mynd: James Kennedy.
Í dag er bóndadagur sem er fyrsti dagur þorra. Þorrinn er fjórði mánuður vetrar samkvæmt gamla íslenska tímatalinu og hefst á bilinu 19.– 25. janúar og lýkur á laugardegi fjórum vikum síðar þegar góa tekur við. Ekki er vitað með vissu hvaðan nafn mánaðarins er komið en oftast er það tengt sögninni að þverra eða minnka og einnig talið geta tengst lýsingarorðinu þurr. Í sögnum frá miðöldum er þorri persónugerður sem vetrarvættur. Áður þóttu þorrinn og góan erfiðastir vetrarmánaðanna þar sem þá var oft farið að ganga á matarbirgðir heimilanna.
 

Á síðara hluta 19. aldar fóru mennta- og embættismenn að halda samkomur sem þeir kölluðu "þorrablót" að fornum hætti, matar- og drykkjuveislur þar sem sungin voru ný og gömul kvæði og drukkin minni þorra og heiðinna goða en þær veislur lögðust af í kaupstöðum eftir aldamótin. Þorrablótssiðurinn hafði þá borist til sveitanna, upphaflega á Austurlandi og Eyjafirði, og hélst hann þar áfram. Það voru svo átthagafélög á höfðuborgarsvæðinu sem tóku siðinn upp um miðja 20. öldina og buðu upp á íslenskan mat sem þá var hættur að tíðkast í kaupstöðum landsins. Síðan hafa þorrablót verið fastur liður í skemmtanalífi landans. (Heimild: http://www.thjodminjasafn.is)

Feykir hefur ekki tölu á öllum þeim þorrablótum sem haldin verða á okkar svæði þetta árið en víst er að þau verða allmörg. Fljótamenn ríða á vaðið og blóta þorrann í kvöld en svo taka blótin við hvert af öðru. Það þykja jafnan hinar bestu skemmtanir þar sem ýmis málefni síðasta árs eru skoðuð í spéspeglinum og mörgum þykja þeir ekki vera menn með mönnum nema þeir séu teknir fyrir á þorrablóti.

Feykir mun sem áður birta myndasyrpur frá þorrablótum á vefnum og í næstu tölublöðum, svo gaman væri að fá sendar myndir eða ábendingar um myndasmiði á netfangið feykir@feykir.is, til að geta birt myndir frá sem flestum blótum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir