Grilluð lúða, grillbrauð og tómatsalat.

Matgæðingarnir Ingibjörg og Sveinn. Mynd úr einkasafni.
Matgæðingarnir Ingibjörg og Sveinn. Mynd úr einkasafni.

Nú styttist í sumarið og grilltíminn nálgast óðum.
„Við elskum að grilla og grillum nánast allan mat," sögðu Ingibjörg Skarphéðinsdóttir og Sveinn Brynjar Friðriksson í Varmahlíð sem voru matgæðingar vikunnar í 14. tölublaði Feykis árið 2015. Þau gáfu lesendum uppskrift af grillaðri lúðu, grillbrauði og tómatsalati, sem þau sögðu vera mjög góða uppskrift að góðu grillkvöldi.

Grilluð lúða

Lúða 1-2 flök
4 msk sítrónusafi
1 dl matarolía
2 paprikur
2 rauðlaukar
sítrónupipar
salt
ferskar kryddjurtir 

Aðferð:
Sneiðið lúðuna í frekar þykkar sneiðar, raðið á álbakka og kryddið vel með sítrónupipar og salti.
Laukurinn og paprikan er saxað smátt og dreift yfir fiskinn. Svo er matarolíunni og sítrónusafanum blandað saman og hellt yfir, það er um að gera að bæta við olíu eða sítrónu ef  ykkur finnst þurfa, svo að fiskurinn þorni ekki.
Að lokum finnst okkur mjög gott að skella söxuðum kryddjurtum yfir t.d. steinselju, sítrónumelissu og dilli. Svo er þetta grillað á lokuðu grilli í um 10 mín., en það fer að sjálfsögðu allt eftir þykkt sneiðanna. Eina ráðið er bara að standa við grillið og fylgjast vel með. 

Meðlæti 1:
Grillbrauð 

300 g hveiti
1 tsk salt
2 tsk þurrger
1 msk hunang
2 msk matarolía
2 dl volgt vatn 

Aðferð:
Þessu er öllu blandað saman og látið hefa sig í um eina klst. Svo er deigið hnoðað aftur í höndunum og búnar til kúlur úr því.
Þegar kominn er tími til að grilla brauðin eru kúlurnar flattar aðeins út í  lófanum og skellt á grillið. Á meðan þau eru grilluð er mjög gott að pensla þau með kryddolíu. Við notum oftast hvítlauksolíu en það er um að gera að prófa sig áfram og nota hugmyndaflugið.
Svo eru brauðin bara grilluð í smá stund, eða þangað til þau fá fallegan lit og það eru komnar smá rákir eftir grindina. 

Meðlæti 2:
Tómatsalat 

5-6 vel þroskaðir tómatar
2 hvítlauksgeirar
1 rauðlaukur
1 msk sítrónusafi
3 msk ólífuolía
1 msk balsamic edik
salt og pipar
basilika 

Aðferð:
Tómatarnir, laukarnir og basilikan söxuð smátt og vökvanum blandað saman við. Smakkið til með pipar og salti. Þetta er mjög gott með öllum grillmat og líka ofan á nýgrillað brauð.

Gleðilegt grillsumar!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir