Lasagne a‘la Árni og beikonvafðir þorskhnakkar með Mexikóosti

Matgæðingarnir Árni og Þorgerður. Mynd úr einkasafni.
Matgæðingarnir Árni og Þorgerður. Mynd úr einkasafni.

Matgæðingar vikunnar í 48. tölublaði árið 2015 voru þau Árni Halldór Eðvarðsson og Þorgerður Þóra Hlynsdóttir, eða Gigga eins og hún er alltaf kölluð. Árni  vinnur á Trésmíðaverkstæði Helga Gunnarssonar og Gigga er tómstunda- og félagsmálafræðingur og sér um Félagsmiðstöðina á Skagaströnd ásamt því að kenna smíðar og fleira við Höfðaskóla.  

„Bacon er í miklu uppáhaldi og því var tilvalið að hafa bæði fisk og kjötrétt með baconi. Við ákváðum samt að sleppa því að setja það í eftirréttinn. Við ætlum að bjóða upp á baonvafða þorskhnakka með Mexíkósosti, lasagne fyrir kjötelskendur og ljómandi góða rúgbrauðstertu.“

Aðalréttur I
Lasagne a‘la Árni 

800-1000 g hakk
2 pakkar beikon
u.þ.b. 5 pylsur
rifinn ostur
2 stórar dósir Hunts pasta sauce, Italian sausage
lasagneplötur
krydd eftir smekk 

Aðferð:
Steikið hakkið og kryddið eftir smekk. Beikon steikt þar til það er stökkt og pylsurnar brytjaðar og steiktar. Allt sett í pott og sósan út í og látið malla saman í smá tíma. Setjið Lasagneplötur og sósu til skiptis þar til allt er búið úr pottinum, stráið rifnum osti yfir og inn í 180-200°C heita ofn í u.þ.b. 20 mínútur.   Borið fram með hvítlauksbrauði. 

Aðalréttur II
Beikonvafðir þorskhnakkar með Mexikóosti 

5 vænir þorskhnakkar, skornir eftir endilöngu
1 Mexikóostur
1 pk. beikon
¼ - ½ l rjómi
2–3 kjúklingateningar/svínateningar (eða bara hvað sem ykkur dettur í hug)
salt og pipar
sojasósa 

Aðferð:
Mexikóostur skorinn í sneiðar og settur inn í þorskinn. Beikon vafið utan um og steikt á pönnu á báðum hliðum. Kryddað með salti og pipar og sett í eldfast mót. Setjið rjóma og teninga í pott og bragðbætið með sojasósu. Látið malla í svolitla stund og hellið í mótið með fiskinum. Sett inn í 200°C heitan ofn þar til fiskurinn er eldaður í gegn.
Borið fram með hrísgrjónum og salati. 

Eftirréttur
Rúgbrauðsterta 

4 egg 
200 g sykur 
125 g rifið seytt rúgbrauð
1 msk kartöflumjöl
1 msk kakó (má sleppa) 
1 tsk lyftiduft 

Aðferð:
Egg og sykur þeytt saman. Þurrefnunum blandað saman og sett varlega út í eggja- og sykurþeytinginn.  Rúgbrauðið er rifið og sett út í blönduna. Skipt í tvo til þrjá hluta og bakað eins og svampbotnar.  Botnarnir eru síðan smurðir með títuberjasultu eða hrútaberjahlaupi og lagðir saman með þeyttum rjóma á milli laga. Þeyttum rjóma smurt ofan á og rifnu súkkulaði stráð yfir. Kakan er lang best ef hún fær að kúra í ísskápnum yfir nótt.

Verði ykkur að góðu!

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir