Mexíkóskt lasagna og Tagliatelle-Kjúklingur

Kolbrún Birna Jökulrós og Þórkatla Sumarrós Þrastardætur. Mynd: Úr einkasafni.
Kolbrún Birna Jökulrós og Þórkatla Sumarrós Þrastardætur. Mynd: Úr einkasafni.

Kolbrún Birna Jökulrós og Þórkatla Björt Sumarrós voru matgæðingar vikunnar í 8. tölublaði Feykis árið 2015.
Þær buðu upp á Mexíkóskt lasagna og Tagliatelle-kjúkling.
„Okkur systrunum finnst rosalega gaman að dúlla okkur í eldhúsinu og finnst okkur báðum mjög gaman að því að elda og baka. Við gleðjum stundum foreldra okkar þegar þau koma úr fjósinu og þá erum við búnar að skella einhverju einföldu í eldfast mót og í ofninn, þá erum við langflottastar,“ segja Kolbrún Birna Jökulrós og Þórkatla Björt Sumarrós Þrastardætur, sælkerar vikunnar frá Birkihlíð í Skagafirði. 

„Við erum lítið fyrir forrétti þannig að við ákváðum að skella í tvo aðalrétti og síðan ís á eftir."

Mexíkóskt lasagna
500 g nautahakk
5 tortillur, hveitikökur úr pakka
1 ½ krukka salsasósa eða tacosósa
3-4 tómatar, saxaðir eða 1 dós niðursoðnir tómatar
½ rauðlaukur, sneiddur
200 g rifinn ostur
Handfylli Doritos 

Aðferð:
Steikið nautahakkið á pönnu og setjið síðan tómatana saman við. Leggið tortillaköku á botninn á eldföstu, kringlóttu móti og nautahakk þar ofan á. Setjið síðan dálítið af salsasósu og dreifið osti þar yfir, ásamt nokkrum rauðlaukshringjum. Leggið síðan aðra tortillaköku þar ofan á, nautahakk, salsasósu, ost og lauk og endurtakið þar til fimmta hveitikakan er komin á. Stráið þá osti yfir hana og svolitlu af muldu doritosi. Sejið í ofninn og bakið við 200 gráður í 20 mínútur. Okkur finnst voðalega gott að bera fram ferskt salat með fetaosti og síðan er voða krúttlegt að hafa líka sýrðan rjóma með. 

Tagliatelle-kjúklingur
6 rúllur af Tagliatelle
1 heill kjúklingur
1 kjúklingateningur
Kjúklingakrydd frá Prima
1 krukka ostasósa
1 krukka salsasósa
Ostur 

Aðferð:
Sjóðið kjúklinginn með teningnum. Sjóðið tagliatelle og rífið kjúklinginn svo niður, steikið hann á pönnu og kryddið hann með kjúklingakryddinu. Skellið tagliatelle í smurt eldfast mót og síðan steikta kjúklingnum. Eftir það á að skella ostasósunni ofan á og svo salsasósunni og setja síðan slatta af rifnum osti ofan á réttinn. Bakið hann svo við 200°C þangað til hann verður geggjað sætur.

Toblerone-ís
6 eggjarauður og 6 eggjahvítur (stífþeyttar)
6 msk sykur
100 g toblerone, brætt
7.5 dl rjómi
200 g toblerone saxað 

Aðferð:
Þeytið eggjarauður og sykur vel saman. Bræðið  100 g af tobleroni yfir vatnsbaði og blandið því varlega saman við eggjablönduna. Þeytið rjómann og blandið honum saman við ásamt 200 g af söxuðu tobleroni. Stífþeytið að lokum eggjahvíturnar og hrærið þeim saman við. Setjið ísblönduna í form og frystið. 

Verði ykkur að góðu!

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir