Rabb-a-babb 128: Atli Fannar

Atli Fannar.  MYND: ÞORMAR VIGNIR
Atli Fannar. MYND: ÞORMAR VIGNIR

Nafn: Atli Fannar Bjarkason.
Árgangur: 1984.
Fjölskylduhagir: Í sambúð með Lilju Kristjánsdóttur laganema og megaskutlu.
Búseta: Vesturbær.
Hverra manna ertu og hvar upp alinn: Fæddur á Sauðárkróki. Mamma heitir Helga Haraldsdóttir og býr á Sjávarborg og pabbi heitir Bjarki Hrafn Ólafsson. Hann vann einu sinni í mjólkurbúinu á Króknum.
Starf / nám: Ég og skólakerfið áttum enga samleið en í dag starfa ég sem ritstjóri Nútímans. Nútíminn er lítill vefmiðill sem ég á meirihluta í.
Hvað er í deiglunni: Þú verður að fara á Nútíminn.is til að komast að því.

Hvernig nemandi varstu? Fínn í grunnskóla, latur í framhaldsskóla. Ég sagði þetta gott áður en ég kláraði hann.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Að dreifa úr fimmþúsundköllunum á rúmið eins og rappari. Samt rappari í íslenska þjóðbúningnum.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Teiknari. Vissi samt ekki hvað ég ætlaði að teikna.

Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Lego. Alltaf Lego.

Besti ilmurinn? Nýbakaðar smákökur, nýslegið gras og auðvitað lyktin af sigri.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Þungarokk. Pantera var uppáhaldshljómsveitin mín og er það líklegast enn þó ég hlusti á rólegri tónlist í dag.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Ég byrja á Rebel Yell með Billy Idol og tek svo Say it Ain’t So með Weezer. Hvoru tveggja með miklum tilþrifum.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Beinum útsendingum. Þá er svo gaman á Twitter.

Besta bíómyndin? Þær eru svo margar. Sá The Big Short um daginn og hún er stórkostleg.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Þessa dagana er Russell Westbrook, bakvörður Oklahoma City Thunder í NBA-deildinni, í miklu uppáhaldi.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Ekki neitt. Kærastan mín er mjög klár.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Ég er með meistaragráðu í grillun.

Hættulegasta helgarnammið? Ég bý mjög stutt frá Vesturbæjarísbúðunni. Það er stórhættulegt.

Hvernig er eggið best? Hrært með salti og pipar.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Ég á mjög erfitt með að vakna.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Metnaðarleysi, frekja, tillitsleysi og smjatt.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Það er Daloon dagur í dag.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Ég var svona tveggja ára í sandkassa á Sauðárkróki að borða sand þegar ég sá stelpu standa í rólu í fyrsta skipti. Fannst það mjög merkilegt og man ennþá eftir áferðinni á sandinum.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Homer er minn maður og verður alltaf. Misskilinn snillingur og tilfinningavera.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Charles Barkley. Hann myndi örugglega ekkert nenna að spjalla við mig en ég væri til í að eiga mynd af okkur saman.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Ég hef engan tíma til að lesa annað en Facebook.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? „Eða eitthvað“

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Mark Zuckerberg. Engum hefur tekist að minnka heiminn meira. Nú þurfum við bara að læra á tólið sem hann bjó til.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Hverjar eru forsendurnar? Bara tímaferðalag eða get ég endað hvar sem er í heiminum? Ef þetta yrði bara einfalt tímaflakk myndi ég fara nokkra mánuði til baka og finna einhverjar góðar lottótölur.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Þetta gat hann!

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... Til Havaí. Alltaf langað til að koma þangað. Eða ekki alveg alltaf. Allavega síðan ég sá Forgetting Sarah Marshall.

Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Tölvu,  körfbolta og kveikjara.

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Troða, fjölga mér og skrifa annað áramótaskaup.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir