Rabb-a-babb 127: Sigrún Fossberg

Nafn: Sigrún Fossberg Arnardóttir.
Árgangur: 1975 eða 1875, er ekki viss.
Fjölskylduhagir: Gift honum Magga mínum í bráðum 25 ár og eigum við 3 afleggjara þau Sigurvin Örn (20) , Kristrúnu Maríu (17) og Halldóru Hebu (11).
Búseta: Hólmagrundin góða í firðinum fagra.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Fossberg í föðurætt og Ögmundar í móðurætt. Ólst svolítið upp í Hrísey, var látin mannast í einangrunarstöðinni áður en ég fékk að koma til Skagafjarðar.
Starf / nám: Ég er hundaræktandi, vinn á Héraðsskjalasafninu og er í marstersnámi í Safnafræðum HÍ.
Hvað er í deiglunni: Rugla í vinnufélögunum, ferðast kannski pínu, svo styttist í sauðburð og Sæluviku, diplómu skírteinið og svo var Sigurvin Örn að klára stúdent þannig að ég sletti eitthvað í form þegar vorar.


Hvernig nemandi varstu? Svona miðað við að Hallfríður, Erla, Óskar, Konni, Siggi Jóns, Björn Magnúsar, Helgi Hannesar og Keli eru enn í bransanum--- þá var ég sennilega ekkert erfið.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum?
 Leiðindaspá en gott veður á Króknum, engin veisla og rosalega sætir strákar í körfubolta fyrir utan gluggan... ég í pilsi og mátti ekki fara út.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? 
 Kennari.

Hvað hræðistu mest? 
Heilsuleysi mitt/annarra og að líflínan slitni hjá mínum nánustu.

Besti ilmurinn? Er náttúrulegur.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Meatloaf, Roxette, Pet Shop Boys og allt sem hægt var að syngja með.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? My Way.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Nágrönnum, úbbs!

Besta bíómyndin? Anna í Grænuhlíð – við erum bara svo andlega skyldar.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Magnúsi eiginmanni mínum. Neisti er náttúrulega mitt lið ;) og hafði Neisti yfirburði í fallegum fótaburði á síðustu öld.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Ég tala mest, en veit ekki hvort það sé best.

Hvert 
er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Laufabrauð.

Hættulegasta helgarnammið? Harðfiskur.

Hvernig er eggið best? Í eggjaköku.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Forvitni og óþolinmæði.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Nöldur.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? Hver er sinnar gæfu smiður.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Þær eru margar úr Hrísey en eitt móment, sem ég held að sé fyrsta minning mín héðan af Krók, var þegar ég fór á rúntinn í Volvo, sennilega að bera út kleinur eða slátur fyrir Maju ömmu. Þá held ég að afi hafi bent á hverja einustu manneskju í bænum og sagt: „Þetta er frænka þín og þetta er frændi þinn.“ Síðan þá hef ég alltaf farið með veggjum.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín?
Jenni mús.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Nostradamus, svei mér þá, veit ekkert af hverju.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur?  Vilborg Davíðsdóttir. Hún skrifar gríðalega skemmtilegar bækur unnar á heimildum, m.a. Galdur, sem ég get lesið aftur og aftur.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið?  Svona er lífið á Læk. Er sennilega ofnotað  enda þekki ég engan á Læk.

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? 
Ja, ég á eftir að finna þann sem mér finnst ekki mikilvægur, en af öllum snillingunum sem ég hef þekkt, lesið um og kynnt mér, finnst mér allir mikilvægir á einhvern hátt.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég myndi sennilega halda mig innan Skagafjarðar enda er hann fullur af skemmtilegum rannsóknarefnum. Svona dags daglega fer ég mjög oft aftur í tímann en þá minnir fjölskyldan  mig á ártal dagsins, enda er ég ferlega gamaldags.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni?  Fyrsta dagbókin sem ég skrifaði í árið 1990- hafði heiti á kápunni og þar stóð: Geymt en ekki gleymt. Kannski mun fyrsta bindið bera það heiti?

Framlenging:

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Læra að njóta hverrar einustu mínútu, svo hef ég lofað Hjalta Páls að skrifa um Sigurð Jóhann Gíslason eða Sigga sprett og ég hef lofað Camillu vinkonu minni á Fagranesi að fara með henni út í Hrísey. Þar sem ég á eftir að efna þessi loforð þá myndi ég vilja standa við þau.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir