Rabb-a-babb 130: Einar Kolbeins

Nafn: Einar Kolbeinsson.
Árgangur: 1973.
Fjölskylduhagir: Sam- og fjarbúð með Emblu Eir Oddsdóttur, forstöðumanni Norðurslóðanets Íslands á Akureyri. Við eigum samtals fjögur börn, tvo uppkomna og tvær á hraðri uppleið.
Búseta: Bólstaðarhlíð.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Sonur Kolbeins Erlendssonar og Sólveigar Ingu Friðriksdóttur í Bólstaðarhlíð hvar ég var fóstraður frá fyrstu tíð. Föðurfólk Húnvetningar og Skagfirðingar en móðurfólk að mestu skagfirskt.
Starf / nám: Sjálfstætt starfandi. BA í samfélags- og hagþróunarfræði frá HA og MBA í viðskiptafræði frá HÍ.
Hvað er í deiglunni: Byggja upp fyrirtækið og vörumerkið Heimafengið utan um ferðaþjónustu og matvælavinnslu.

Hvernig nemandi varstu? Sennilega í skárra meðallagi.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum?
 Eftir á að hyggja hinn trúarlegi tvískinnungur sem einkennir gjörninginn fyrr og síðar.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ungur drengur undirbjó, / í anda glæstra vona, / hitt og annað hygg ég þó, / ég hafi endað svona.


Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Ætli Legokubbarnir skori ekki hæst þegar allt er talið.

Besti ilmurinn? Þetta er auðvitað frámunalega klisjukennt, en angan af vori kemur fyrst upp í hugann.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Það er bara alls ekkert líklegt í þessu samhengi!

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Svo sem engu en ég neita ekki að hafa ansi gaman af House of Cards.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Nú hef ég bara öngvar sérstakar mætur á slíkum umfram öðrum tvífætlingum.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? 
Segja til.

Hvert 
er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Uppvask.

Hættulegasta helgarnammið? Lakkrísinn.

Hvernig er eggið best? Nýorpið og linsoðið.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Gæti mögulega verið þvermóðska sem ég hef heyrt gefið í skyn að eigi það til að skjóta upp kollinum stöku sinnum.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Tvöfeldni, tvískinnungur og ósanngirini.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? „...nóttlaus voraldar veröld...”

Hver er elsta minningin sem þú átt? Ég er nú ekki sá minnugasti sko...

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Gæti verið garmurinn hann Garfield.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Þó af aurum ætti gnægð, / af íhaldssömum vana, / síst ég myndi fagna frægð, / fjandinn má eiga hana.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur?  Vonlaust að nefna eina bók eða einn höfund.

 Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Ég er almennt séð á móti því að hefja fólk á stall eða setja einn hærra en annan. Sagan sýnir að slíkt er oft ekki verðskuldað, við erum öll mikilvæg á einn eða annan hátt.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Það væri eflaust afar áhugavert að kíkja stuttlega við hjá hugvits- og listamanningum Leonardo daVinci og fylgjast með honum uppgötva, smíða og skapa allskonar ólíkindaverk.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Hlyti að verða: “Í óþökk hans sjálfs”.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu...
til Tuvalu

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Sjá afkomendurna okkar komast til fullorðinsára og ná fótfestu þar sem þeim líður sannarlega vel, ferðast til framandi staða og sjá miklu meira af heiminum og ná nokkrum tilteknum persónulegum markmiðum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir