Rabb-a-babb 147: Helga Kristín

Nafn: Helga Kristín Gestsdóttir.
Árgangur: 1981.
Fjölskylduhagir: Á fjögur börn; Gest Mána 12 ára, Hafþór Inga 7 ára, Hildi Margréti 5 ára og Sigurstein Helga 3 ára. Svo kærasta sem býr í Sviss.
Búseta: Reykjavík.
Hverra manna ertu og hvar upp alin: Ég er dóttir Ragnhildar Helgadóttur og Gests Þórarinssonar. Ég var svo heppin að vera alin upp á Blönduósi.
Starf / nám: BSc í iðjuþjálfunarfræði frá Háskólanum á Akureyri. Starfa á Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins en þar sækja börn og ungmenni og fjölskyldur þeirra greiningu og ráðgjöf vegna þroskafrávika.
Hvað er í deiglunni: Spennandi ferðalög út fyrir landsteinana

Hvernig nemandi varstu? Ég held að ég hafi verið yfirveguð og samviskusöm.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Ég man mest hvað ég var hamingjusöm og naut þess að fylla heimilið af gestum.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Að sjálfsögðu hárgreiðslukona.

Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Barbie-dótið mitt.

Besti ilmurinn? Nýbakað brauð.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Ég var ballöðusjúk, hlustaði t.d. á Celine Dion, Whitney Houston og Mariah Carey.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Klárlega Simply the Best með Tinu Turner.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Er alveg hrikalega léleg í sjónvarpsglápi en íslenskir landsleikir af ýmsu tagi fara bara helst ekki framhjá mér.

Besta bíómyndin? Dirty Dancing, því ég fæ nostalgíukast í hvert sinn sem ég horfi á hana.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Það hreyfir mest við mér að horfa á mín eigin börn keppa í íþróttum.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Það er nú ekki mikil samkeppni en að skipuleggja hin ýmsu svið daglegs lífs er mitt sérsvið og nauðsynlegt á barnmörgu heimili.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Marensinn minn klikkar ekki.

Hættulegasta helgarnammið? Rjómasúkkulaði með karmellukurli og sjávarsalti.

Hvernig er eggið best? Linsoðið með salti.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Frestunaráráttan – en ég vinn bara svooo vel undir pressu!

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Óheiðarleiki og það að sjá alltaf neikvæðu hliðina á hlutunum.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun?  Mistök eru sönnun þess að þú ert að reyna.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Ég man eftir mér að flytja að heiman dragandi dótaskúffuna á eftir mér.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Ég elska Tomma og Jenna og get alltaf hlegið af þeim.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Celine Dion – ég væri svo sannarlega til að syngja á einum tónleikum sem hún.

Hver er uppáhalds bókin þín? Ég er alltaf með bók á náttborðinu og hef unun af að lesa mér til afþreyingar en akkurat núna kemur engin ein bók upp í hugann.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Dísus.

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Fyrir mig sem fyrirmynd þá er það klárlega Vigdís Finnbogadóttir en það er ekki hægt að líta framhjá að Mark Zuckerberg hefur haft stórvægileg áhrif á að minnka heiminn!

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég myndi fara að hitta pabba, sem er látinn, til að gefa honum eitt knús, segja honum það sem ég átti eftir að segja og kveðja hann almennilega.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Átt þú þau öll? (börnin)

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu....myndi millilenda í Sviss að sækja kærastann og fara til Balí.

Ef þú ættir að dvelja alein á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Get ekki valið þrjá þar sem ég á 4 börn.

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Verða hundaeigandi, upplifa ömmuhlutverkið og heimsækja Balí.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir