Rabb-a-babb 153: Óli Sindra

Nafn:  Ólafur Atli Sindrason.
Árgangur: 1977.
Fjölskylduhagir: Kvæntur Helgu Sigurðardóttur frá Grófargili og  við eigum þrjár dætur, Ernu Sigurlilju, Þóru Emilíu og Ólöfu Helgu.
Búseta:  Ég bý á góðbýlinu Grófargili í Seyluhreppi.
Hverra manna ertu og hvar upp alinn: Sonur hjónanna Sindra Sigfússonar og Ernu Reynisdóttur, bænda á Breið í Lýtingsstaðahreppi. Lýtingur að hálfu en Suðurnesjamaður og Eyfirðingur að fjórðungi hvor.  Bjó í Njarðvík til tveggja ára aldurs en síðan á Breið í Lýt.
Starf / nám: Grunnskólakennari við Varmahlíðarskóla og bóndi á Grófargili. Menntaður kennari en ómenntaður bóndi með brjóstvit.
Hvað er í deiglunni: Svona fyrir utan að grípa í kennslu eru það hauststörfin á búgarðinum sem nú hellast yfir.

Hvernig nemandi varstu? Ég var yfirleitt frekar stilltur nemandi (nema í heimilisfræði)  og gekk almennt vel í skóla. Var þó aldrei sérlega góður íþróttamaður.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Ætli það sé ekki uppblásið og aflitað hárið (sem mér fannst mjög flott á þeim tíma)  - og hvað veislan stóð lengi, mig minnir ca. 8 tíma.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Ég ætlaði alltaf að verða bóndi - en líka leikari (hvernig sem það átti nú að passa saman).

Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Stóri bangsinn hann Henry - sem var lengi framan af æskunni stærri en ég.

Besti ilmurinn? Ilmur af heyböggum sem eru óhultir inni í hlöðu.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Ég er næstum alæta á tónlist, þannig að það hefur væntanlega verið það sem vinsælast var árið 1994 - Ace of Bace eða eitthvað í þá áttina.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? Nú er ég léttur með Geira.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Dönskum myndum  og þáttum - og Ævi er nýjasta æðið.

Besta bíómyndin? Stella í orlofi – frasarnir eru ódauðlegir.  Eins kemur Útlaginn sterkur inn - vegna þess sama.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Axel Kárasyni - eðal Skagfirðingi.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Sofna fyrir framan sjónvarpið – það er mitt aðalsmerki.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Ég myndi segja að það væri folaldasnitsel með öllu tilheyrandi.

Hættulegasta helgarnammið? Allt sem tengist lakkrís og pipardufti.

Hvernig er eggið best? Alveg grútspælt.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Hvað ég er gjarn á að týna hlutum (eða finna þá ekki).

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Óstundvísi, fyrst og síðast.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun?  „Illu er best skotið á frest” – er að reyna að hætta að tileinka mér það…

Hver er elsta minningin sem þú átt? Þegar ég sit grenjandi í ferðatöskunni hennar ömmu frá Njarðvík og heimta að fá að fara með henni suður.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Línan – það er eitthvað við þessar skapsveiflur sem heillar.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Snorri Sturluson - hann á að hafa skrifað alveg ódauðlegar bókmenntir.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur?  Flestar bækur Indriða G. Þorsteinssonar - vegna þess að hann hefur knappan og skemmtilegan stíl og er oft alveg meinfyndinn.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Legg ekki meira á ykkur!

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati?Forfeður mínir - annars væri ég ekki til.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu (og af hverju)? Aftur til aldamótanna 1800 - til að upplifa bændamenningu sl. 1000 ára beint í æð.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? „Ég er orðinn eins og eitt af húsgögnunum” - saga skólamanns.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu… Ég myndi fara til Ísafjarðar og kanna Vestfirðina betur.

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina:   Ná háum aldri (helst 96 ára), búa um tíma í útlöndum og skrifa eins og eina skáldsögu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir