rabb-a-babb 20: Rúnar Gísla

Nafn: Rúnar Birgir Gíslason.
Árgangur: 1975 úr Varmahlíð.
Fjölskylduhagir: Giftur Hugrúnu Ósk Ólafsdóttur og við eigum Ástrós Hind Rúnarsdóttir, þriggja ára.
Starf / nám: Er að læra tölvuverkfræði í Árósum í Danmörku.
Bifreið / reiðhjól / hestur: 7 gíra reiðhjól.
Hestöfl: Fer eftir styrk fóta hverju sinni.
Hvað er í deiglunni: Er á leið til Póllands að dæma á heimsmeistaramóti grunnskóla í körfubolta.

Hvernig hefurðu það? 
Prýðilegt, samt orðin þreyttur á þessum snjó hérna í Danmörku, grunar að Húsvíkingarnir sem fluttu hingað í sumar hafi flutt þetta með sér.

Hvernig nemandi varstu? 
Ég ER ágætis nemandi.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? 
Þegar fermingarsystir mín barði í öxlina á mér þegar við áttum að gang til altaris, ég var sofnaður.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? 
Bóndi á Frostastöðum.
Hvað hræðistu mest? 
Það er fátt sem ég hræðist, helst missi ástvina.
Hver var fyrsta platan sem þú keyptir (eða besta)? 
Frostlög var fyrsta platan en alls ekki sú besta.
Hvaða lag ertu líklegastur til að syngja í Kareókí? 
Á sjó.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)? 
Ørnen, Krøniken og Rejseholdet.
Besta bíómyndin? 
Með allt á hreinu, var allavega besta myndin á vídeóleigunni í KS Varmó þegar ég vann þar.
Bruce Willis eða George Clooney / Angelina Jolie eða Gwyneth Paltrow? 
Bruce Willis, Clooney er svoddan kelling. Angelina Jolie, sömu rök, Paltrow er svoddan kelling.
Hvað fer helst í innkaupakörfuna sem ekki er skrifað á tossamiðann? 
Pilsner.
Hvað er í morgunmatinn? 
Hafragrautur, dóttir mín kenndi mér að borða hann.
Uppáhalds málsháttur? 
Sá vægir sem vitið hefur meira - ég þarf oft að vægja.
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? Rassmus klumpur hefur aldrei klikkað, bæði á dönsku og íslensku.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Hafragrautur í örbylgjuofni.
Hver er uppáhalds bókin þín? Bækur Arnaldar Indriðasonar eru í miklu uppáhaldi um þessar mundir, þó það séu skólabækur sem eru mest lesnar.
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... ...til Los Angeles þar sem ég myndi fara á leik með LA Lakers.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Óskipulag, er alltaf að reyna að bæta það.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Þegar fólk tekur hlutina of alvarlega og er að drukkna í lífsgæðakapphlaupinu.
Enski boltinn - hvaða lið og af hverju? Liverpool, er eitthvað annað lið í Englandi? Byrjaði að halda með þeim fyrir 20 árum ásamt Lárusi Degi félaga mínum. Eitt sumarið reyndu frændur mínir austan vatna að breyta mér í Man Utd mann en Lalli sagði að maður mætti ekki skipta um félag. Síðan hef ég verið tryggur Poolari.
Hvaða íþróttamanni / dómara hefurðu mestar mætur á? Michael Jordan er einstakur íþróttamaður. Það eru margir dómarar sem maður fylgist með og tekur það besta hjá hverjum og einum. Collina er maður sem hefur einstakt lag á að dæma.
Kim Larsen eða Shu-Bi-Dua (uppáhaldslag með viðkomandi)? Nú er erfitt að velja, heyri ekki mikið í þeim þó ég búi í Danmörku. Vel Kim Larsen því ég þekkti hann áður en ég kom til Danmerkur.
Hver var mikilvægasta persóna 20. aldarinnar að þínu mati (bannað að nefna Kristinn Albertsson)? James Naismith, án hans væri ekki til körfubolti.
Ef þú ættir að dvelja aleinn á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? 
Konuna, dótturina og öflug tæki til að komast á netið.
Hvað er best í heimi? Ástrós Hind Rúnarsdóttir.Hvað er skagfirskast? Kaupfélagið.
Hvað hafa Árósar fram yfir Varmahlíð og öfugt? Einn stærsti kostur Árósa fram yfir Varmó er að hér er hægt að hafa ADSL. Annars eru þetta svipaðar stórborgir. Jú í Árósum er bíó, í Varmahlíð er reyndar bíóhús, bara aldrei neitt sýnt þar.
Hvað einkennir dani helst? Danir eru ákaflega afslappað fólk, hér gerast hlutirnir ekki eins hratt og á Íslandi. Ef maður þarf t.d. að færa peninga milli reikninganna sinna, þá er ég að tala um báða reikninga í Danmörku þá tekur það einn sólarhring. Hér þarf líka að senda allar beiðnir með sniglapósti og bíða eftir svari með sniglapósti.  Annars eru Danir besta fólk og viðkunnalegir sérstaklega ef maður reynir að tala við þá á dönsku og minnist ekki á 17. júní.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir