rabb-a-babb 25: Böddi Steingríms

Nafn: Böðvar H. Steingrímsson.
Árgangur: 1966.
Fjölskylduhagir: Ólofaður í móðurhúsum.
Starf / nám: Heimspeki og þýskar bókmenntir, Ludwig-Maximilians-Universität München, Freie Universität Berlin, þetta eru fög sem aldrei verða kláruð.
Bifreið: Eru menn að grínast?
Hestöfl: Hugur minn er 2000 hestöfl.
Hvað er í deiglunni: Bylting á Íslandi.

Hvernig hefurðu það? 
Reiður og alfaraleiður. Til í hvað sem er.
Hvernig nemandi varstu? 
Ég var einstaklega góður nemandi. Eftirlætisfög mín voru íslenska og átthagafræði, og síðar tungumál, fyrir utan ensku sem ég reyndi skipulagt að ryðja úr hausnum á mér fyrir síðustu aldamót. Enskan er nýja AIDSið.
Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? 
Að ég skyldi selja sál mína fyrir hljómtæki af KS-gerð, þrjú eintök af Passíugrími, tvö af HLH og 24 þúsund kall í peningum.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? 
Þegar ég var fáviti ætlaði ég að verða flugmaður en síðan var stefnan sett á andlega flugmanninn: Ætlaði að verða skáld en er bara ekki nógu mikill flaðrari í mér.
Hvað hræðistu mest? 
Geirmund Valtýsson og Óskar Pétursson. Dreymdi einu sinni að þeir báru mig út á Reykjaströnd og dýfðu mér í kar fullt af tjöru.
Hver var fyrsta platan sem þú keyptir (eða besta)? 
Transformer með Lou Reed. Það var líka besta platan þar til ég sá ljósið og uppgötvaði að poppið endist ekki. Mozart og Mahler eru málið.
Hvaða lag ertu líklegastur til að syngja í Kareókí? 
Der Erlkönig eftir Schubert og Goethe.
Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu (fyrir utan fréttir)? 
Horfi ekki á sjónvarp. Mútter Dóra sér um þá deild.
Besta bíómyndin? 
Myndin sem Viddi bróðir ætlar að gera um Krókinn. Ég er að vinna í handritinu. Hún á að heita "Skammakrókur" og fjallar um mann sem vinnur hjá KS en fær loks nóg þegar hann uppgötvar að það er gat í gólfplötunni á Byggðastofnun niður á skrifstofu kaupfélagsstjórans og peningarnir streyma því óhindrað niður til hans. Ein milljón á dag. Eftir smá umhugsun ákveður hann að afhjúpa svindlið með því að skrifa nafnlausan pistil á Skagafjörður.com en fær í kjölfarið hótanir frá Mafíuflokknum og þarf að berjast við framasóknarmenn af þremur helvítis kynslóðum í svefni jafnt sem vöku. Ritstjóri sk.com stendur hinsvegar með honum allan tímann, heldur yfir honum verndarhendi, og það bjargar honum á endanum. Viddi segir að myndin eigi eftir að minna fólk á kvikmynd sem heitir "The Insider", sem ég hef auðvitað ekki séð.
Bruce Willis eða George Clooney / Angelina Jolie eða Gwyneth Paltrow? 
Hvaða fólk er þetta? Ef þetta eru Nýsjálendingarnir úti í Villa Nova, þá verð ég að segja ég er meira fyrir Serbana. Hef líka heyrt að þeir séu mun duglegri í Sláturhúsinu. Fólk sem talar ensku er enda alltaf hálf slappt.
Hvað fer helst í innkaupakörfuna sem ekki er skrifað á tossamiðann? 
Eiginlega skil ég ekki þessa spurningu. Ég var aldrei tossi. Ég kaupi bara það sem ég ÞARF og ekkert meir. Mínar freistingar liggja annarstaðar.
Hvað er í morgunmatinn? 
Harðfiskur með smjöri og svart kaffi.
Uppáhalds málsháttur? 
Of mikil velsæld skapar vesæld.
Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín? 
Ég verð auðvitað að segja Bangsímon. Ekki vegna þess að ég horfi á hann heldur vegna þess að Viddi bróðir talsetur hann á íslensku og breska fitudýrið hefur því haft ómæld áhrif á líf okkar allra í fjölskyldunni. Ég er alltaf að segja Vidda að hætta þessu rugli en hann segist ekki geta það. Barnaefnið er hans fíkniefni.
Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? 
Það er kvæði mitt "Tilbrigði við Steph. An G." (getið lesið það á blogginu mínu rokland.blogspot.com ef þið eruð ekki netlausir nefítökumenn) "Sit hér einn á Sauðárkróki / að sumbli í eigin skel..." Þetta var ort við eldhúsborðið heima á meðan mamma horfði á Fólk með Sirrý. Ég hef ekki enn séð þann þátt. Er enn að bíða eftir Fólk á móti Sirrý.
Hver er uppáhalds bókin þín? 
Það er engin spurning. Svo mælti Zaraþústra er málið og Nietzsche er minn maður. ?Á fjöllum er stysta leiðin tind af tindi?.
Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... 
Aftur í tímann, til Weimar árið 1800, þar sem Goethe og Schiller gengu báðir um götur, stundum saman.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? 
Það er helvítis feimnin.
Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? 
Æðiberjatýnslan. Fólk getur aldrei staðið kyrrt eða slappað af, það er alltaf á leiðinni eitthvað annað, alltaf á eftir æðiberinu í rassinum á næsta manni. Ef því tekst að tala við mann er það með annað augað á símanum eða jafnvel í fokking símanum. Það þarf að banna þetta miklu frekar en reykingar.
Enski boltinn - hvaða lið og af hverju? 
Enski boltinn? Af hverju? segi ég nú bara. Það er hugsun í þýska boltanum, sá enski er tómur æsingur. Tóm barátta. Enda fór Jolli til Berlínar en ekki Bolton.
Hvaða íþróttamanni / dómara hefurðu mestar mætur á?
Ég vel dómarann hér. Uppáhaldsdómarinn minn er pottþétt Ólafur Börkur í hæstarétti. Ef ég gef einhverntímann út bók myndi ég vilja láta hann dæma hana.
Heim í Búðardal eða Diskó Friskó?
Ég hitti einu sinni Pólverja sem sagði mér frá herlögunum sem hann bjó við sem barn. Þá mundi ég eftir lögunum sem ríktu yfir barnæsku minni. Þetta eru tvö af þeim. Merkilegt hvað hefur ræst úr manni.
Hver var mikilvægasta persóna 20. aldarinnar að þínu mati?
Friedrich Nietzsche vegna þess að hann hafði vit á því að deyja árið sem hún hófst.
Ef þú ættir að dvelja aleinn á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér?
Nylon stelpurnar og mömmu til að elda.
Hvað er best í heimi? 
Að fá hugmynd eða verða fyrir hugljómun.
Hvað er skagfirskt? 
Rokland.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir