Býr til músík í bílskúrnum - Ásgeir Bragi eða Ouse

Ásgeir Bragi Ægisson
Ásgeir Bragi Ægisson

Ungur Króksari, Ásgeir Bragi Ægisson, hefur vakið athygli á netinu, með flutningi laga sinna ekki síst á YouTube rás sinni Ouse. Ásgeir á ekki langt að sækja músikhæfileikana en hann er sonur Guðbrands Ægis Ásbjörnssonar fjöllistamanns og Guðbjargar Bjarnadóttur framhaldsskólakennara.

Ásgeir Bragi sem er á 17 ári, stundar nám við FNV auk þess sem hann sækir vinnu meðfram skóla. Hann hefur samið tónlist um tveggja ára skeið og segist verja tveimur til fimm tímum á dag í þau verkefni.

Afurðirnar setur hann á netið en hann á og rekur YouTube rásina Ouse en þar er að finna slatta af lögum hans sem og á SoundcCloud. Þá er hann í rappgrúbbunni Drungabræður ásamt Óskari Halli Svavarssyni og Auðuni Elí Jóhannssyni og gerir músík með þeim.

Rappararnir í Drungabræðrum Auðunn Elí Jóhannsson, Óskar Hallur Svavarsson og Ásgeir Bragi Ægisson.

 En hvernig skyldi hann vinna lögin?
„Ég sem lögin oftast í stúdíóinu, og tek þau upp jafn óðum. Textana sem ég samt bara hvar sem er, í skólanum, vinunni eða þegar ég ligg uppi í rúmi. Það skiptir í raun ekki hvar ég er bara þegar ég fæ góðar hugmyndir af texta. Lögin tek ég öll upp í stúdíóinu í bílskúrnum en þar er ég með lítið horn, tölvu, mic og hátalara,“ segir Ásgeir.

Hann segist ekki mikið gera tengt músík en þetta. „Ég bara fer í skólann, vinn vinnuna mína og þegar ég kem heim geri ég tónlist.“

Þeir sem vilja kíkja á tónsmíðar Ásgeirs Braga ættu að skella leitarorðinu Ouse á YouTube og hækka svo í græjunum.

Systkinin Ásgeir Bragi og Ása Svanhildur Ægisdóttir og náðu einni kvöldstund í bílskúrnum í jólafríinu og afraksturinn má heyra og sjá hér fyrir neðan.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir