Góður rekstur Byggðastofnunar

Ársfundur Byggðastofnunar var haldinn í gær á Hótel Laugarbakka í Miðfirði.  Á fundinum hélt samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra erindi þar sem m.a. kom fram að hann hefði í hyggju að skipa starfshóp sem fær það hlutverk að meta þörf fyrir endurskoðun laga um Byggðastofnun, sem eru frá árinu 1999. Hann kvaðst telja eðlilegt að lagaumhverfið sé yfirfarið reglulega og tryggt að það styðji á hverjum tíma við hlutverk og gildi stofnunarinnar.

Á heimasíðu Byggðastofnunar kemur fram að í stjórn stofnunarinnar hafi verið skipuð; Illugi Gunnarsson, formaður, Einar E. Einarsson, varaformaður, Sigríður Jóhannesdóttir, Gunnar Þorgeirsson, Karl Björnsson, María Hjálmarsdóttir, Gunnar Þór Sigbjörnsson

Í inngangsorðum Aðalsteins Þorsteinssonar,  forstjóra  Byggðastofnunar, gekk starfsemi hennar vel á árinu 2017 og verkefnin jafnan fjölbreytt. Árið 2017 er fimmta árið í röð sem reksturinn skilar afgangi og eiginfjárhlutfallið hækkar jafnt og þétt og var nú í ársbyrjun 23,6%.

Lánasafn stofnunarinnar eitt og sér skilar ágætum afgangi sem telst gott sé til þess litið að Byggðastofnun hefur hvorki þjónustutekjur né vaxtamunartekjur af innlánum og er auk þess ætlað að lána til verkefna sem aðrar lánastofnanir vilja ekki lána til, og helst á lægri vöxtum.

Af þeim sökum verður jafnan að reikna með sveiflum á milli ára í afkomu stofnunarinnar, en rekstrarleg markmið hennar eru fyrst og fremst að starfsemin sé rekin með afgangi þegar til lengri tíma er litið, eins og segir í Ársskýrslu Byggðastofnunar.

 Illugi Gunnarsson, stjórnarformaður Byggðastofnunar, segir góða sátt virðast ríkja í samfélaginu um að æskilegt sé að styðja með uppbyggilegum hætti við byggðaþróun í landinu. Mikilvæg forsenda þeirrar sáttar sé að unnið sé með faglegum hætti og að fjármunir séu skynsamlega nýttir. Jafnframt, segir hann, hefur skilningur vaxið á því að þó næg atvinna sé frumforsenda lífvænlegrar byggðar þarf fleira að koma til þegar kemur að ákvörðun um búsetu.

Á fundinum var Landsstólpinn, samfélagsviðurkenning Byggðastofnunar einnig veitt, en hún kom að þessu sinni í hlut Sköpunarmiðstöðvarinnar á Stöðvarfirði.

Á fundinum héldu Hólmfríður Sveinsdóttir sérfræðingur í samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu erindi um Byggðaáætlun 2018-2024. Sigríður Elín Þórðardóttir hélt kynningu á niðurstöðu úr þjónustukönnun sem Byggðastofnun gerði og Þóroddur Bjarnason kynnti fyrirhugaða rannsókn á orsökum búferlaflutninga.

HÉR má nálgast árskýrslu Byggðastofnunar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir