Handanheimar og tilgangur lífsins - Viðtal við Þórhall Guðmundsson miðil

Þórhallur Guðmundsson er löngu orðinn landskunnur fyrir miðilsstörf sín enda iðinn við að halda fundi víða um land sem og að hafa verið með þætti bæði í útvarpi og sjónvarpi fyrr á árum. Hann hefur haldið fundi reglulega á Sauðárkróki og myndað sterk tengsl við Skagfjörð og íbúa hans. Stutt er síðan Þórhallur hélt fundi á Sauðárkróki og freistaðist undirritaður til þess að taka hann tali og forvitnast um miðilshæfileikana, líf eftir dauðann og jafnvel tilgang lífsins.

Þórhallur er Reykvíkingur í húð og hár, uppalinn í Laugarnes- og Vogahverfinu. Hann hefur búið mestan hluta ævinnar í borginni en í nokkur bjó hann á Akureyri en fyrir fjórum árum snéri hann aftur á æskustöðvarnar þar sem hann býr nú. Eins og kom fram í inngangi kemur Þórhallur reglulega í Skagafjörðinn tvisvar til þrisvar á ári og segist hann hafa kynnst Skagfirðingum mjög vel á allan hátt. Móðurættina rekur hann í Svarfaðardalinn en  föðurættin er úr Þingeyjasýslu og eitthvað suður með sjó, eins og hann orðar það. Hann segir meiri tengingar vera við móðurættina og Svarfaðardalinn.

Það er nokkur vandi að spyrja um hluti sem maður skilur ekki og kannski sérstaklega um þann hæfileika að ná sambandi við látið fólk. Aðspurður um hvenær hann hafi fyrst orðið var við að hafa fengið þessa hæfileika segir Þórhallur hafa verið meðfætt. „Móðuramma mín, Snjólaug Jóhannesdóttir frá Skáldalæk, vissi að drengurinn væri eitthvað öðruvísi og maður var vissulega öðruvísi en aðrir krakkar. Ég var skapmikill, kraftmikill og ég heyrði mikið. Heyrði raddir og ég hélt á tímabili að ég væri nú bara ruglaður. En það var eins og ég ætti bara að vera rólegur og standa mína plikt. En þegar ég fór að sitja í bænahring, þá byrjaði þetta örlítið að jafnast út. Fyrsti hringurinn sem ég sat í var hjá Steindóri Marteinssyni, en hann bjó hér á Sauðárkróki, var gullsmiður. Þetta var fyrir sunnan og þar sátum við nokkur saman. Svo fór ég niður í Sálarrannsóknarfélag Íslands, í Garðastræti, og þá mótuðust ákveðnir hlutir og maður sá hvert förinni var heitið. Það kom sænskur miðill Thorsten Holmqvist, sem hvatti mig eindregið til að sitja og vera í þessu og hann hjálpaði mér mikið. Svo fór ég til Bretlands, til Stansted í breska sálarrannsóknarfélagið, og var þar með aðsetur. Þar eru haldnir viku kúrsar þar sem miðlar leiðbeina og kenna og þar kynntist ég forseta breska sálarrannsóknarfélagsins Gordon Higgins. Hann var stórt og mikið nafn, og naut mikillar virðingar. Hann var yndislegur miðill og hafði þann hæfileika að geta haldið manni grátandi í annarri hendi og hlæjandi í hinni á sama tíma,“ segir Þórhallur alvarlegur. Þar sá hann fyrst og kynntist útfrymi eða líkamningum en hann segir að lítið fari fyrir þess konar atburðum fyrir framan almenning. Meira sé um það í einkahringum eða í heimahúsum.

Hjá breska sálarrannsóknarfélaginu segist Þórhallur hafa séð margt merkilegt og þar lærði hann hvernig á haga sér og halda þessum hæfileikum í höndunum á sér. „Svo þróaðist það að ég settist í bænahring hér heima og þetta gerðist allt saman hægt og rólega. Svo byrjaði maður að fara út á land og m.a. til Sauðárkróks. Þá var Kalli formaður Sálarrannsóknarfélagsins en Björk var konan hans. Þá upphófust kynni við fólk sem hefur markað leið mína síðan m.a. Sigrúnu og Sverri sem ég var hjá alla tíð. Ég kallaði þau fósturforeldrana á Suðurgötu 18b.“ Þórhallur segir að þar hafi oft verið glatt á hjalla og skemmtilegir hlutir gerðir með góðu fólki. Það voru oft skemmtilegar stundir og mikið hlegið og haft gaman.

 

Líf eftir þetta líf

Aðspurður um hvort miðilsfundir séu alltaf jafn vinsælir segir hann að það sé eins og einhverjar umbreytingar séu í þessum málum núna og minni eftirspurn. Stöðunum hefur fækkað á landsbyggðinni þar sem áður var fundað. En hann segist alltaf vera kominn heim þegar hann er kominn í Skagafjörðinn. „Skagfirðingar hafa alltaf verið forvitnir einstaklingar og margar skemmtilegar persónur til eins og Dúddi á Skörðugili.  Fólk heldur áfram þó það sé farið og hefur kvatt. Þeir halda áfram að skammast í sveitungum sínum og ættingjum þó að þeir séu farnir. Það er ekkert látið af því,“ segir Þórhallur og brosir breitt. „Talandi um Dúdda þá sér maður að hann er að vinna sín verk og skipta sér af og hjálpa. Það virðist vera þörf fyrir þessa menn að halda áfram eins og t.d. Einar á Einarsstöðum og sr. Sigurð Hauk Guðjónsson. Það er alltaf verið að láta vita af sér.“

Þórhallur segir að hlutverk miðils sé að sanna að það sé líf eftir þetta líf. Sýna fram á að einhver sé í kringum mann og koma með skilaboð um eitt og annað. Hann minnist skemmtilegra funda sem sem voru haldnir í Safnahúsinu á Sauðárkróki á árum áður en þá fjölmennti fólk alls staðar að úr héraðinu. „Ég var einmitt að hugsa um það á leiðinni hingað og horfði að Safnahúsinu hvað það var gaman. Alltaf komu Hofsósbúar seinastir á fundina og við biðum alltaf í fimm til tíu mínútur til að hægt væri að byrja,“ segir Þórhallur og hlær dátt og bætir við að það hafi nú bara verið gaman.

 

Þessi örfíni þráður

Eins og það sé ekki nóg að hafa lifandi fólk í kring um sig ímyndar maður sér að það geti verið truflandi að framliðnir séu líka að þvælast í kringum mann. Þórhallur segir að það trufli hann ekki lengur en gerði það á yngri árum. „Þetta er ekki truflandi þannig en það verður náttúrulega ekki tekið af manni að maður sér og finnur ýmislegt og það er nú bara eðli máli samkvæmt og maður getur ekkert breytt því. En það hefur aldrei verið manni til neikvæðra hluta í þeirri merkingu verið eitthvað viðkvæmur. Þetta er bara eðlilegur hlutur. Móðuramma mín var mikill spíritisti og það var tvennt sem maður áttaði sig á þegar ég var lítill. Þegar hún klæddi sig í upphlut eða peysuföt þá var hún annaðhvort að fara á miðilsfund eða á jarðaför. Hún fór alltaf til Hafsteins miðils. Hún lét vita af sér daginn eftir að hún kvaddi þessa jarðvist. Móðir mín hafði pantað tíma hjá Hafsteini og einhver ákveðinn tími gefinn en svo hringir hann og biður um að fresta fundinum og gaf henni aðra dagsetningu. Sú dagsetning var allt í lagi en amma kvaddi þá daginn fyrir fundinn. Hún lá þá á Kristnesi og mamma var eitthvað rög við að fara á fundinn en fór samt og amma lét vita af sér. Sagði að þetta væri bara hólkur og var alveg með það á hreinu hvað þetta var eðlilegt og sjálfsagt og trúði mikið á mátt bænarinnar. En hún horfði á þetta mjög skemmtilegum augum,“ segir Þórhallur og útskýrir að það sé mjög misjafnt hvenær fólk kemur fram. „Stundum gerist þetta eins og með hana og svo eins og með aðra konu. Hún kom á fund til mín og inn í herbergi. Ég segi: Fyrirgefðu, varstu að koma af jarðarför? Hún segir já. Það fylgdi henni kona og eftir að hafa lýst henni þá kom í ljós að hér var komin konan sem verið var að jarða. Þá var hún bara að láta vita af sér og að henni liði vel. Það er þessi örfíni þráður sem er á milli þessa heims og annars. Hann er fyrir hendi. Við skulum aldrei vanmeta nærveruna því nærvera þeirra fyrir handan er sterk. En maður þarf kannski fyrst og fremst að sætta sig við hana sjálfur, vita að það er eitthvað fylgst með manni. Því þú þarft að opna hjarta þitt svo hægt sé að komast að þér,“ segir Þórhallur og leggur áherslu á að fólk hefur frjálsan vilja og orku til aftra því að framliðnir nálgist það.

Hugsunin um að opna hjarta sitt til að opna á samband eða aukið næmi kallar á spurninguna hvort allir gætu náð sambandi við aðra heima með einhvers konar þjálfun. Þórhallur segir það hægt en spurningin sé á hvern hátt það samband myndi þróast. „Sumum er þetta náttúrulega gefið. Sumir geta þjálfað sig upp því öll erum við næm, það verður ekki af okkur tekið. Það er til góð saga og sönn að það var kona sem sat í bænahring eða þróunarhring. Hennar heitasta ósk var að fara upp á svið og vera með skyggnilýsingafund og gefa skilaboð að handan. Hún sat í nokkurn tíma þangað til stjórnandi hringsins segir: Jæja! Nú ertu tilbúin og þú verður með skyggnilýsingafund, einhvern ákveðin dag. Eftir þrjár eða fjórar fjórar vikur hélt hún fundinn með pompi og prakt og gerði allt mjög vel og hún gekk af sviðinu stolt og ánægð á eftir. Daginn eftir kvaddi hún,“ segir Þórhallur og ítrekar að hægt sé að þjálfa sig en til þess þarf þolinmæði. Og mikilvægt sé að átta sig á til hvers er verið að þróa næmnina.

 

Ófullkomið handrit

Þeir sem hafa farið á miðilsfundi hafa eflaust velt því fyrir sér af hverju fólk kemur með kveðjur eða skilaboð en engir þekkir viðkomandi eða kemur honum ekki fyrir sig. Skyldi þörfin hjá þeim vera mikil fyrir að koma í gegn?

„Já, sérstaklega í Skagafirði. Alveg 100%. Það eru skagfirskir andar og straumar sem eru mjög skemmtilegir. En jú það er alltaf einhver á sveimi. Fólk áttar sig kannski ekki alltaf á því. Þegar fólk mætir á skyggnilýsingarfund þá er það opið fyrir að fá skilaboð, vegna þess að það sendir í huganum ósk um að einhver komi og láti vita af sér.  Þá ert þú búinn að opna fyrir. Stundum kemur fólk sem maður á síst von á. En það er alltaf einhver á sveimi í kringum mann. Þegar þú kemur inn kemur þú með ákveðna orku með þér. Stundum alveg hlutlaus og veist ekkert hverju þú átt von á en það kemur alltaf með þér eitthvað og maður þarf bara að lesa rétt úr því. Stundum fær maður skilaboð og viðkomandi hefur ekki hugmynd. Ég þurfti t.d að lesa út fyrir eina konu, ekki hér í Skagafirði, og ég las og las og las. Hún stóð upp eftir 45 mínútur og sagði: Veistu Þórhallur! Ég hef ekki hugmynd um hvað þú hefur verið að segja. Ég rétti henni kasettuna og sagði henni að geyma hana mjög vel. Þetta væri leiðbeining til hennar fyrir lífið seinna meir. Hún tók kassettuna og þrjú á liðu en þá gekk hún í gegnum erfiðleika og hún fullyrti það við mig að ef hún hefði ekki fengið þessar leiðbeiningar hefði hún verið ein rjúkandi rúst. Þannig að þeir fyrir handan vita stundum meira fram í tímann en við gerum okkur grein fyrir. Þess vegna skilur maður ekki alltaf hvað verið er að segja. Stundum er þetta fyrir mér líkt og að tala rússnesku.“

Aðspurður hvort búið sé að skrifa handritið að lífinu fyrirfram segir Þórhallur að vissulega sé hver og einn með ákveðið handrit í höndunum. Kannski ekki fullskrifað né fullmótað því allir hafa fullt vald til að skrifa og móta. „Handritið kemur að hluta til með þér úr síðustu lífum en að hluta til að fylla með þessu lífi. Og hvort síðurnar passi, nái saman eða ekki, þá kannski skerast hlutirnir á einn eða annan hátt. En þú ert alltaf með þinn fúsa og frjálsa vilja með þitt vald til að ákveða hlutina sjálfur. Það er enginn sem getur stjórnað þér. Þú stjórnar!“

 

Þegar steinninn birtist

Það gerðist á einum fjöldafundi í Safnahúsinu fyrir mörgum árum síðan að lítil steinvala birtist sem úr lausu lofti og skoppaði eftir gólfinu. Enginn hafði skýringu á tilkomu steinsins og er enn á huldu hvað gerðist. Þórhallur segist ekki skilja enn þann dag í dag hvað var um að vera. „Steinninn kom bara einhvers staðar frá. Ég hélt fyrst að hann hefði komið úr buxnaskálminni á mér en þetta voru einhver skilaboð um að þeir þarna fyrir handan eru að fylgjast með. Það eru til tengingar og orka þar sem eitthvað birtist manni. Talandi um líkamninga. Það var kona á fundi hjá miðli sem að líkamnaðist og gat látið gjafir birtast. Það kom gjöf til einnar konu. Stór og falleg rós. Einu skilaboðin voru þau að það mætti enginn snerta hana nema hún. Konan fer með þessa rós heim til sín og setur inn í skáp og allir dáðust að rósinni. Einhverra hluta vegna gleymdi hún eitt sinn að loka skápnum og systir hennar opnaði skápinn og kom við rósina sem hvarf með það sama. Þeir að handan geta birst okkur, ekki bara í draumi. Þeir geta birst okkur í nærveru, það sterkri að þú getur hér um bil verið viss um að pabbi þinn standi við hliðina á þér bara með því að finna það. Þá fer hann inn á orkusviðið og þú þekktir pabba þinn og þú vissir hvernig hátt hann hafði og ákveðnar tilfinningar sem voru alltaf með honum. Þetta getur hann framkvæmt bara með því að standa við hliðina á þér þó þú sjáir hann ekki. Því þarna er skynjunin þín komin við það,“ segir Þórhallur. Hann segir að ekkert álíka og birting steinsins í Safnahúsinu hafi komið fyrir hjá honum aftur. „Nei, ekki svo minni reki til. Þarna voru skagfirsku skilyrðin kannski bara svona rosalega góð,“ segir Þórhallur en aðspurður segist hann ekki hafa hugmynd um hvað varð um steininn.

 

Tilgangur lífsins

Ein spurning er það sem undirritaður hefur lengi langað til að spyrja viðmælanda, en aldrei fundið tilefnið. Hver er tilgangur lífsins? Í lokin gat blaðamaður ekki setið á sér og með bros á vör var hún borin fram. En Þórhalli fannst hún bara ekkert skrítin né óvenjuleg og svaraði án þess að hika. „Það er tilgangur fyrir hvern og einn einstakling að þroska sig og gera sig að betri manni. Við erum öll breysk og höfum okkar að vinna úr, meðvitað og ómeðvitað. Ef þetta líf er ekki til þess að gera sig að örlítið betri manni og sjá örlítið meira af því sem innra með manni er með að þroska sig og stækka, þá held ég að þú hafir náð að finna örlítinn tilgang með lífinu. Þegar maður deyr er spurt hvað maður lætur mikið eftir sig en englarnir munu spyrja: Hvað hefur hann sent mörg góðverk á undan sér? Góðverkin í þessu lífi eru uppskeran í því næsta.

Áður birst í 23. tbl. Feykis 2017.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir