ÍSLENSKA.IS 20.10. 2016

Guðríður B. Helgadóttir. Mynd: BÞ
Guðríður B. Helgadóttir. Mynd: BÞ

RUV. Rás 1. Íslensk mál, málfarsráðunautur, málverndarnefnd, málfarskennsla, málfarsþróun. Eftir að hafa hlustað á orðræðu um íslenskt mál á rás 1 áðan, fljúga margblendnar hugsanir í gegnum undirvitundina og vekja til nánanari ígrundunar á ýmsum hliðum málsins. Og til þess nota menn málið að tjá hugsanir sínar í orði og verki. Í nútímanum er talvan oft nærtækust til að taka við því sem leitar útrásar. Svo fer einnig í þetta sinn. Þó verðugt væri að ræða málið nánar og fá fram fleiri sjónarmið frá mörgum hliðum þessa mikilsverða máls. 

Þjóðtunga landsins? Tungumál Íslendinga til að skilja hver annan, lýsa verklagi, staðháttum og líðan. Segja fyrir verkum, spyrjast fyrir, setja lög og reglur sem allir landsmenn skilja og lúta í sameiginlegri vinnu og veru á því landi sem fólk hefur valið til búsetu og lífsafkomu allra landsmanna. 

Á landnámsöld settist hér að fólk sem sögur herma að hafi flest komið frá Noregi, Orkneyjum og Írlandi. Löndum sem, eins og næst verður komist, munu þá hafa talað það svipaðar mállýskur að fljótlega hefur málið þróast og blandast þannig að sjá má skyldleika og orð úr nafngiftum þessara landa, bæði manna og staða frá þeim tíma og enn í málvenjum Íslendinga.

Þetta leiðir hugann að þeirri sígildu staðreynd, að tungumálið er tjáningarform og sameiningartákn allra þjóðflokka, sem þroskast og breytist við þau störf og það félagsform, sem lífshættir og umhverfi skapar fólki á hverjum tíma. Lengst af hefur þessi þjóð haft lífsafkomu og skipulag sem bændaþjóðfélag, með fiskveiðar í bland til búdrýginda í matarforða heimilinna fram eftir öldum. Það var ekki fyrr en á síðustu öld sem fiskútgerð þróaðist í þá stærð að verða gjaldmiðill og útflutningsvara til vöruskipta.

Vegna þessarar löngu, samfelldu sögu og tiltölulega lítið breyttra búskaparhátta, hefur þjóðtunga eyjunnar okkar haldið sínum upprunaeinkennum í málnotkun og skilningi á frummálinu, en aukið við orðaforða daglegs máls með myndauðgi margra og margræðra orða í skáldlegu hugarflugi ýmsra nafngifta á sama fyrirbæri. Nægir þar að nefna veðrið sem dæmi. Þó af nógu sé að taka á öðrum sviðum.

Það að Íslendingar fóru strax að segja sögur og skrifa bækur við frumsæðar aðstæður, hefur síðan styrkt og aukið vegsemd okkar og skyldu til að vernda og viðhalda þessari hreimfögru þjóðtungu okkar og sína henni virðingu.

Og þá kem ég loksins að áhyggjunum og þeirri þörf, sem kom mér til að leggja orð í belg þeirrar umræðu sem nútíminn verður að taka, ef ekki á að verða hér innan tíðar, komin upp vantalandi tölvuþjóð. Ólæs og illskiljanleg, vegna orðfæðar og slanguryrða ýmsra mállýska.

Börn bændaþjóðfélagsins lærðu málið af því það var fyrir þeim haft við dagleg störf, sem þau fylgdu foreldrum sínum við, strax og þau gátu borið fyrir sig fætur og hendur. Þau lærðu að vinna með þeim úti í náttúrunni, þekkja nöfn á kennileitum og náttúrufyrirbrygðum, mönnum og málleysingjum. Fjölnota tæki baðstofunnar, tóvinnunnar, heyannanna og smiðjunnar, urðu þeim gagnkunnug strax á unga aldri og lífshlaup lifenda frá vöggu til grafar, varð þeim eðlileg framvinda uphafs og endis, með málskýringum hversdagsins. Allt var þetta uppspretta daglegs máls og notkunar þess á öllum sviðum.

Það er þetta sem ég held að nútíminn sé ekki að átta sig á og vanmeta. Þjóðfélagsgerðin hefur stökkbreyst á svo stuttum tíma, að samfélagið gefur börnum ekki lengur kost á þessari lifandi og verklegu fræðslu, sem er ófrávíkjanlega áhrifaríkust og skiljanlegust til að æfa orðaforðann á líðandi stund þroskabrautar barnsins. Foreldrar barna sem nú eru að alast upp, eru þeim fjarverandi í daglaunastörfum nútímans, koma þreytt heim úr vinnu, til að sinna heimilisverkum og barnauppeldi á stuttri kvöldstund til allra þeirra skyldustara. Barnaheimilin og leikskólarnir eru mannaðir yndislegu fólki sem gerir allt það ferli eins vel og hugsast getur, á þeim vettvangi til hópvinnu og afþreyingar. En hvorki umhverfi né áhöld kalla á fjölbreytilegan orðaforða og barnaskólarnir, sem síðan taka við, virðast ekki bæta miklu þar við með lifandi og myndríku móðurmáli né skilningi á þeim þjóðarauði. „Málfræðistaglið“ eitt og sér, glæðir lítið tilfinninguna fyrir því að það er tungumálið sem er sameiningartákn hverrar þjóðar og undirstaðan að sjálfstæðum ákvörðunarrétti við úrlausn mála í lýðræðis þjóðfélagi.

Á síðustu öld, þegar þjóðfélagið var að stökkbreytast með nýjum atvinnuháttum, þá áttum við marga vökula og frjóa málhreinsunarmenn, sem unnu ötullega að því að útrýma dönskublendingi tungumálsin, eftir veru dana og yfirráð hér bæði í verslun og áhrifum stjórnarfars. Þá spruttu einnig upp þjóðskáldin okkar, listaskáldin góðu, með sitt leiftrandi fagra og myndauðga málfar í ljóðum sem öll þjóðin lærði, hafði yfir og söng daglega. Ljóð, sem skólabörn lærðu utanbókar og fylgdu þeim síðan ævina út. Auðguðu málfar þeirra, skilning og hugsun. Börn allra tíma læra það mál sem fyrir þeim er haft

Þessi þjóð stendur nú á stórhættulegum, en um leið ákaflega skapandi og skemmtilegum tímamótum, þar sem formfasta, einangraða, sjálfsþurftar bændaþjóðfélagið er að baki, en í staðinn verið að reyna að fóta sig í fjölþjóða samfélagi, sem stjórnast af sérhagsmunahyggju og valdagræðgi. Tungumálið er spegillinn á ástandi þjóða, hugsunum, störfum og samfélagslegu ástandi á hverjum tíma. Um það er samelld, bókfærð og skrifuð saga íslensku þjóðarinnar ólýgnust staðreynd og samtímaheimild , sem rekja má og rannsaka. Draga af lærdóm og hafa til hliðsjónar við úrlausn mála.

Nú er öldin önnur og málfar þjóðarinnar að mengast af áleitnum enskuslettum úr tölvuvæðingu umheimsins. Fábrotið, útvatnað enskuhrafl með slagorðaslettum og skammstöfunum SMS málsins látið nægja til samskipta. Við talað orð vefst mörgum tunga um tönn að tjá sig með þeim fábrotna orðaforða sem hugurinn hefur vald á að setja í setningar. Heimur leikjatövunnar er auðugastur af ofbeldi og gerfimennsku. Íslenskst nútímaþjóðfélag og lifnaðarhættir, útiloka að mestu, þátttöku barna í atvinnu og ábyrgð daglegs lífs foreldranna. Gamla fólkið er einnig sett í annað hólf tilverunnar. Skólarnir „kenna á bókina“, en lífið, með öllum sínum fjölbreytileika frá vöggu til grafar, verður fyrir ungviðinu eins og fjarlægur draumur, langt fram eftir aldri. Reynsluleysi og þekkingarskortur á mörgum sviðum, veldur því að margt kemur á óvart, þegar út atvinnulífið og ábyrgðarhlutverkin kemur. Einnig tungumálið, sem túlkar orð og athafnir.  Þá virðist oft auðveldast að grípa þau orð sem  að berast og nota áfram, gagnrýnislaust. Með dvínandi tengslum og tilfinningu uppvaxandi æsku og yngra fólks við landið og þjóðtunguna, er hætt við að hvorutvegga glati þeirri ást og virðingu sem þeim ber og verður að vera af skilningi rækt, fyrir andlegt og efnalegt sjálfstæði þjóðar.

Hvar eru nú vormenn Íslands og Fjölnismenn málverndar stefnu? Verður „Íslands Óhamingju allt að vopni“ nú, þegar margar blikur eru á lofti í valdabaráttu þjóðfélaga og einstaklinga.?  

Hvað þarf til að opna augu ráðandi afla til að sjá að samfélagsleg ábyrgð OKKAR ALLRA verður að vera samtaka um að vernda þjóðtungu okkar, menningu og menntun, sjáljstæði og mannréttindi, með heibrigt líf í hraustum líkama lands og þjóðar. Við þá skyldu má enginn skorast undan né skjóta undan skatti við að tryggja að svo megi verða.

Það eitt getur viðhaldið virðingu okkar, velferð og gæfu í framtíðinni.

Guðríður B. Helgadóttir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir