Skemmtilegt samstarf um reiðkennslu á milli skólastiga í Skagafirði

Aðsent Hlín Mainka Jóhannesdóttir og Arndís Björk Brynjólfsdóttir 

Hlín Mainka Jóhannesdóttir

 Hlín Mainka Jóhannesdóttir, BS - reiðkennari og verkefnastjóri Knapamerkja skrifar:

Reiðkennaranámið er mikilvægur þáttur  BS-náms í reiðmennsku og reiðkennslu við Háskólann á Hólum og fer fram jafn og þétt yfir öll þrjú námsárin.  Nemendur læra að kenna á nánast öllum stigum reiðmennsku og jafnframt með mismunandi fyrirkomulagi, svo sem hópkennslu, einstaklingskennslu og að halda sýnikennslu.

Knapamerkin liggja til grundvallar reiðkennslufræðunum. BS-nemendur læra að kenna öll fimm stig Knapamerkjanna og einnig að dæma fyrstu þrjú stigin. Til þess að æfinga-reiðkennslan endurspegli raunveruleikann sem best, fyrir 15 - 20 reiðkennaraefni samtímis,  þarf stóran hóp nemenda á mismunandi getustigi. Út frá þessari þörf hefur þróast frábært samstarf á milli Hestafæðideildar Háskólans á Hólum, allra grunnskóla í Skagafirði og einnig Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV). Segja má að allir aðilar njóti ávinnings af þessu samstarfi, þar sem nemendur úr grunnskólum og FNV fá fræðslu um hesta og reiðmennsku, ásamt því að kynnast betur háskólanum okkar í Skagafirði. Nemendur Hólaskóla fá á hinn bóginn fjölbreyttan hóp nemenda á mismunandi aldri og getustigi, sem reynir á kennslufærni þeirra.

Hvernig er reiðkennaranám við Hestafræðideild Háskólans á Hólum byggt upp?
Á fyrstu önn læra nemendur grunnatriðin í reiðkennslu með því að kenna samnemendum sínum námsþætti úr Knapamerkjum 1 og 2. Að kenna knöpum sem eru í rauninni á sama getustigi og sá sem kennir, er góð leið til þess að brjóta ísinn og ná grunnfærni í reiðkennslu. Næsta skref er að kenna yngri nemendum, sem hafa litla reynslu af hestamennskunni, grunnatriðin úr fyrstu tveimur Knapamerkjunum.  Þá reynir meira á reiðkennaraefnin að útskýra á skiljanlegan hátt og við hæfi hvers nemanda. Þetta er framkvæmt á annarri önn BS-námsins, í umfangsmiklu verkefni sem er fjögurrara daga valnámskeið fyrir nemendur úr efri bekkjum grunnskóla í Skagafirði.

Undanfarin ár hafa árlega 35-40 grunnskólanemendur tekið þátt í þessu námskeiði heima á Hólum og er alltaf mikið fjör og gaman á staðnum þessa daga.
Grunnskólanemendurnir dvelja á Hólum allan skóladaginn, og fá bóklega kennslu hálfan daginn en verklega hinn helming dagsins. Þeim er skipt í hópa eftir getustigi og fá kennslu í ýmsu tengdu hestum, eins og fóðrun og hirðingu, að ógleymdri reiðmennskunni. 

Fyrir nemendur Hólaskóla eru þetta annasamir en lærdómsríkir dagar, þar sem mikið þarf að skipuleggja, sýna, og útskýra. Síðasti dagurinn er oftast settur upp með ratleik og smalabraut, þar sem reynir á að nemendur sýni hvað þeir hafa lært undanfarna daga.  

Á öðru ári er viðfangsefni BS-nemendanna að kenna aðeins vanari knöpum.  Áhersla er lögð á hópkennslu, þar sem 3-6 knapar eru inni á reiðsvæðinu í einu. Koma nemendur hestafræðibrautar FNV þá nokkrum sinnum heim að Hólum til þess að fá reiðkennslu hjá Hólanemunum. Þeir vinna saman í 5-6 manna hópum og þurfa að skipuleggja nokkrar kennslustundir í sameiningu. Viðfangsefnin eru helstu atriðin úr þriðja stigi Knapamerkjanna sem er einmitt viðfangsefni nemendanna úr FNV á sama tíma.

Hver og einn reiðkennaranemanna kennir hluta hverrar kennslustundar, en mikilvægt er að reiðtíminn myndi eina heild fyrir knapana. Til þess að svo verði þarf kennarahópurinn að vinna vel saman, skipuleggja í þaula og ekki síst fylgjast vel hver með öðrum.

Á þriðja námsári er mest áhersla lögð á einkakennslu og sýnikennslu. Á haustönn æfa kennaraefnin sig í að kenna samnemendum sínum flóknari atriði í reiðmennsku en á vorönn fara þeir í reiðhöllina á Sauðárkrók og taka þar nemendur úr FNV í einkakennslu.

 

Samstarf Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Háskólans á Hólum 

Arndís Björk Brynjólfsdóttir

 Arndís Björk Brynjólfsdóttir, reiðkennari við FNV skrifar um þetta samstarf:

Samstarf skólanna hefur staðið allt frá því að tilraunakennsla á námsefni Knapamerkjanna hófst í kringum árið 2000. Reiðkennarar Hólaskóla hafa komið að prófdæmingu verklegra prófa í reiðmennsku við FNV og einnig hafa nemendur við Hestafræðideild verið með æfingakennslu við skólann. Sú kennsla hefur ýmist farið fram heima á Hólum eða á Sauðárkróki og kennslustundirnar verið bóklegar og verklegar, auk sýnikennslu. Kennarar við báða skólana hafa fylgt kennslunni eftir og komið að námsmati.

Þetta fyrirkomulag hefur mælst vel fyrir hjá nemendum okkar, enda stefna sumir þeirra á áframhaldandi nám í hestamennsku við Hólaskóla. Nemendurnir þurfa að skila skýrslu eftir hverja heimsókn, og þar þurfa þeir meðal annars að segja frá eigin upplifun af kennslu Hólanemanna. Eftirfarandi tilvitnanir eru sóttar í slíkar skýrslur:

„Þetta var mjög skemmtileg heimsókn og gaman að brjóta aðeins upp og fá hugmyndir og nýja gagnrýni ásamt nýjum aðferðum. Það gekk mjög vel með minn hest og kennarinn minn var mjög góður. Ég lærði að treysta hestinum mínum honum .... betur. Nota leiðandi taum betur. Svo fékk fyrirlesturinn mig til að hugsa um markmiðsetningu.“

„Fyrirlesturinn var mjög gagnlegur, mjög gott að fara yfir grunnreiðmennsku og pæla meira í henni. Sýnikennslan var fín og reiðtíminn hjálpaði mér að hugsa meira um ásetuna.“

Samstarfið milli skólanna er að mínu mati mjög gagnlegt fyrir bæði skólastigin. Að starfsmönnum beggja skóla gefist kostur á að fylgjast með hvað verið er að gera á hvorum stað fyrir sig. Einnig að skiptast á skoðunum og áherslum. Með þessu er verið að styrkja skólastarf hér á svæðinu. Ef við eigum að halda áfram að efla nám í hestamennsku og áhuga á menntun í greininni held ég að þetta sé mjög mikilvægt. Saman byggjum við sterkari stoðir undir námið og aðgang að því í okkar heimabyggð. 

Áður birst í 1. tbl. Feykis 2018.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir