Ungbarnaumræðan í öðru ljósi

Það breytist ýmislegt á litlu heimili þegar nýr fjölskyldumeðlimur lítur dagsins ljós og lífið fær nýjan tilgang. Á svip stundu fer allt að snúast um þessa litlu sál sem treystir því að foreldrar sínir fæði það og klæði. Á mínu heimili er ein gullfalleg dama sem varð árs gömul núna í maí. Reyndar er önnur gullfalleg á heimilinu líka en hún fær minni umfjöllun í þessum skrifum. Við erum sem sagt þrjú í heimili og eins og áður segir snýst lífið um að sinna þessari litlu dömu sem vex og dafnar.

Þegar fæðingarorlofi með sín meðal reiknuðu og skertu laun lýkur, treystir fólk alla jafna á að samfélagið rétti því hjálparhönd til að komast aftur á vinnumarkaðinn og afla tekna fyrir heimilið. Þessi hjálp felst í störfum dagforeldra og leikskólastofnana sem vinna höfðinglegt starf við að ala upp og rækta börnin meðan foreldrarnir eru útivinnandi. Þetta mun vera eðlileg þróun sem hefur þekkst til margra ára.

Ástandið í dag er þó mikið breytt frá því sem áður var. Við eins og margar aðrar fjölskyldur stöndum frammi fyrir því að þessi samfélagslega hjálp er einfaldlega ekki í boði fyrir okkur. Hér í Sveitarfélagi Skagafjarðar eru dagforeldrar nánast hverfandi stétt og biðlistar á leikskóla lengjast með hverju ári.

Hingað til höfum við náð að samstilla vinnu og heimili þar sem við störfum bæði sjálfstætt.  Heimilisfaðirinn hefur þó lagt reksturinn á hilluna og unnið við helgarkennslu í vetur sem hefur hjálpað mikið. Óvíst er að það plan gangi til lengdar. Við eigum einnig frábært bakland í fjölskyldum beggja vegna sem er okkur virkilega dýrmætt. Því miður eru samt ekki allir svona heppnir.

Þessu daglega púsli átti að ljúka í ágúst þegar daman, þá orðin 15 mánaða, kæmist inn á leikskóla eins og reiknað var með. Það virðist ekki vera raunin þar sem fregnir hafa borist þess efnis að hún fær ekki pláss í haust. Það eru sláandi fréttir.

En þá spyr maður sig: „Hvað er það sem veldur þessu ástandi?“

Mat pistlahöfundar á ástandi dagforeldra er að löppunum hefur verið kippt undan þeim með inntöku fleiri og yngri barna í leikskólana síðustu árin. Allt er það gert til að geðjast okkur íbúum sem virðist koma hratt í bakið á okkur aftur.

Vandi leikskólanna er mikið dýpri og hefur náð að vaxa mikið síðustu árin. Hér á Sauðárkróki höfum við nýja en umdeilda skólabyggingu sem talin var leysa öll vandamál á þessu sviði. Svo er ekki því byggingarnar eru ekki aðal vandamálið. Vöntun á starfsfólki er megin vandinn og er það á fleiri svæðum en í okkar sveitarfélagi.

Að gerast faglærður leikskólakennari tekur fimm ár í háskóla. 5 ár fyrir laun sem eru rúmum hundrað og fimmtíu þúsund krónum hærri en lágmarkslaun. Gífurlegan áhuga þarf því fyrir starfinu til að leggja námið á sig og er staðreyndin sú að margir hætta við vegna þess.

Ófaglærður starfsmaður á leikskóla er að hafa rétt rúm lágmarkslaun, sem eru oft á tíðum minni en hægt er að hafa úr almennum verslunar- og framleiðslustörfum, þó ekki sé talað niður til þeirra starfa.

Í þessari samantekt erum við samt sem áður að tala um fólkið sem vinnur mjög ábyrgðarfullt starf eins og áður segir að ala upp og rækta börnin okkar, það mikilvægasta sem við eigum.

Það er því engin furða að starfið sé ekki nægilega eftirsótt og er það í hlut sveitarfélaga landsins að laga ástandið og bæta kjör stéttarinnar.

Ég ætla því að skora á sveitarfélagið mitt að taka skrefið, bæta launakjör leikskólastarfsmanna og gera starfið meira eftirsóknarvert.

Í lokin sendi ég pistlaáskorun mína til frænda og félaga Kolbeins Konráðssonar.

Áður birst í 21. tbl. Feykis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir