Var í fernum úrslitum á Íslandsmótinu

Mynd: Íslandsmeistararnir í fjórgangi unglinga, Júlía Kristín og Kjarval frá Blönduósi. Mynd úr einkasafni.
Mynd: Íslandsmeistararnir í fjórgangi unglinga, Júlía Kristín og Kjarval frá Blönduósi. Mynd úr einkasafni.

Júlía Kristín Pálsdóttir á Flugumýri í Skagafirði er margverðlaunuð í hestaíþróttum en á dögunum varð Júlía Kristín Íslandsmeistari í fjórgangi unglinga á Íslandsmóti yngri flokka, sem haldið var á Hólum í Hjaltasal. Þar sveif hún keppnisbrautina á Kjarval frá Blönduósi. Júlía á ekki langt að sækja hestaáhugann en hún er dóttir þeirra Eyrúnar Önnu Sigurðardóttur og Páls Bjarka Pálssonar sem gert hefur garðinn frægan með Flugumýrarhrossin. Júlía Kristín er Íþróttagarpur Feykis að þessu sinni.

Íþróttagrein: -Hestaíþróttir

Íþróttafélag: -Skagfirðingur

Helstu íþróttaafrek: -Var í fernum úrslitum á öllum þremur hestunum mínum á Íslandsmótinu á Hólum í Hjaltadal í ár. Íslandsmeistari tvö ár í röð og síðan 3. sæti á Landsmótinu 2016 og svo auk margra minni titla.

Skemmtilegasta augnablikið: -Þau eru eiginlega tvö. Þegar Eyrún systir mín vann A- flokkinn á  Hrannari frá Flugumýri á landsmótinu á Hólum í fyrra og var fyrsta konan sem afrekaði það og hitt var þegar ég var pínu lítil að keppa á Vindheimamelum og flýtti mér svo upp í brekku að horfa á Þórdísi systur mína að ég tók bara beislið af Dropa mínum og hann hljóp með hitt áleiðis heim.

Neyðarlegasta atvikið: -Fór í fjórða gír en ekki bakkið á bílnum mömmu þegar ég var að snúa við og lenti útaf. Great job!

Einhver sérviska eða hjátrú? -Nei ég held í rauninni ekki ég vil samt yfirleitt alltaf vera með  gott skipulag í kringum mig

Uppáhalds íþróttamaður? -Ég ætla að nefna systkinin mín sem eru mínar helstu fyrirmyndir og eru öll flottir knapar. En síðan er Jakob Svavar Sigurðsson einnig í uppáhaldi hjá mér.

Ef þú mættir velja þér andstæðing, hver myndi það vera og í hvaða grein mynduð þið spreyta ykkur? -Myndi skora á systkinin mín hvert okkar myndi verða fyrst af okkur að leggja á og hoppa í hnakkinn.

Hvernig myndir þú lýsa þeirri rimmu? -Læti, læti og meiri læti og ég myndi vinna!

Helsta afrek fyrir utan íþróttirnar? -Vaxa&dafna

Lífsmottó: -Létt, ljúf & kát!

Helsta fyrirmynd í lífinu: -Mínar helstu fyrirmyndir eru bara systkinin mín. Ef ég ætti þau ekki væri ég ábyggilega ekki komin svona langt sjálf í hestaíþróttinni.

Hvað er verið að gera þessa dagana? -Halda áfram að þjálfa og sinna hrossunum mínum.

Hvað er framundan? -Var að hugsa um að fara á svona eitt til tvö mót í viðbót og síðan ætla ég að gefa hrossunum mínum gott frí og fara kannski sjálf eitthvað í frí. Síðan ætla ég að taka snemma inn fyrir næsta ár og vera vel undirbúin.

Áður birt í 29. tbl. Feykis 2017.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir