Vísindamenn við Háskólann á Hólum á Dagatali íslenskra vísindamanna.

Háskólinn á Hólum. Mynd: FE
Háskólinn á Hólum. Mynd: FE

Vísindavefurinn og Vísindafélag Íslendinga standa nú fyrir Vísindadagatalinu en þar er einn íslenskur vísindamaður kynntur hvern dag og fjallað um starf hans og rannsóknir. Tilefnið er 100 ára afmæli Vísindafélagsins. Stjórn Vísindafélagsins og ritstjórn Vísindavefsins velja vísindamennina, í samráði við forstöðumenn háskóla og rannsóknastofnana, og er markmiðið að bregða upp svipmynd af fjölbreyttri flóru blómlegs rannsóknastarfs hér á landi og þýðingu þess fyrir samfélagið allt, eins og segir í kynningu á Vísindadagatalinu.

Háskólinn á Hólum hefur hingað til átt tvo vísindamenn á dagatalinu. Þetta eru þau Guðrún Jóhanna Stefánsdóttir, lektor við Hestafræðideild Háskólans á Hólum, sem var vísindamaður dagsins þann 16. apríl sl.og þann 21. apríl var komið að Bjarna Kristófer Kristjánssyni, prófessor og deildarstjóra við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum.

Guðrún hefur stundað rannsóknir á hestum í rúm 20 ár og hefur aðalviðfangsefni hennar verið á sviði þjálfunarlífeðlisfræði íslenska hestsins ásamt því að rannsaka liti íslenska hestsins og fóðrun hesta. Hún hefur kennt við Hólaskóla í rúmlega 20 ár, fyrst við Bændaskólann á Hólum og síðar Háskólann á Hólum. Kynninguna um Guðrúnu má finna hér

Rannsóknir Bjarna hafa einkum beinst að fjölbreytni smádýrasamfélaga í lindarbúsvæðum og grunnvatni og innan tegunda ferskvatnsfiska. Hann hóf störf við Hólaskóla árið 1998. Árið 2007 var hann skipaður dósent og prófessor árið 2011. Bjarni hefur verið deildarstjóri Fiskeldis- og fiskalíffræðideildar Háskólans á Hólum frá árinu 2010. Hér má nálgast kynninguna á Bjarna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir