Dreymdi um að vera Elvis / SÖLVI SVEINS

Skólamanninn Sölva Sveinsson kannast eflaust flestir við en hann er cand. mag. í sagnfræði og hefur lengst af starfað við kennslu og skólastjórnun, ásamt ritstörfum, fæddur árið 1950, alinn upp á Króknum, aðallega í fjörunni segir hann.

Sölvi tekur þátt í jólabókaflóðinu að þessu sinni en Sögufélag Skagfirðinga gefur út hina stórskemmtilegu bók hans, Dagar handan við dægrin, hvar hann varpar til lesenda minningarmyndum í skuggsjá tímans. Feykir náði í kappann í Köben fyrir tilstilli nútímatækni og fékk hann til að svara nokkrum vel völdum spurningum tengdum lyst hans á tónlist, bæði hinni hefðbundnu og ekki síður jólatónlist. Sölvi er hræddur um að eina hljóðfærið sem hann hefur tileinkað sér sé röddin og helsta afrekið á tónlistarsviðinu sé að hafa sungið í Barnakirkjukórnum hjá Eyþóri Stefánssyni um 1960.

Uppáhalds tónlistartímabil? 1963-73.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Elvis og allir hinir sem gerðu garðinn frægan um 65.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Bara það sem var spilað í gömlu gufunni, nema pabbi hélt alltaf konsert á sunnudagsmorgnum meðan hann rakaði sig.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ætli fyrsta platan hafi ekki verið Sgt. Peppers Lonely eða hvað hún nú hét. Vínill. Ég var orðinn 24 ára þegar ég eignaðist græjur.

Hvaða græjur varstu þá með? Einfaldan nálaspilara með tveimur vesælum hátölurum.

Besta lagið til að hlusta á í bílnum / á göngu? Síðustu vikur var það Fred Åkerström að syngja Bellman.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Hvaða lag sem er með Gylfa Ægissyni.

Hvenær má byrja að spila jólalögin? Alls ekki fyrr en eftir 1. des., helst ekki fyrr en svona viku fyrir jól.

Uppáhalds jólalagið? Ég sá mömmu kyssa jólasvein af léttara taginu, en Nóttin var sú ágæt ein af sálmagreininni.

Hvernig eru jólalögin best? Þau eru best þegar maður sýslar við jólaundirbúning, t.d. við baksturinn.

Þú vaknar í rólegheitum á jóladagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Þá nýt ég þagnarinnar.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Ég tæki konuna með mér til himnaríkis að hlusta á Pavarotti.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Elvis þegar ég var yngri.

Hver var fyrsta platan sem þú óskaðir þér í jólagjöf? Ég tengi Óskalög sjúklinga við æskuárin, þau voru eftir hádegi á laugardögum. Söngur villiandarinnar hljómar nokkuð sterklega.

Hvaða plötu þykir þér vænst um eða hvaða plata hefur skipt þig mestu máli? Best of Hollies af því ég á sérstakar minningar um hana síðan ég var í Menntaskólanum á Akureyri. Þá forum við í Sjallann á föstudagskvöldum og fengum okkur kannski aðeins í aðra tána áður en við forum og þá var þessi plata spiluð. Svo um tíuleytið forum við allir drengirnir úr sparibuxunum og sá lífsreyndasti pressaði buxurnar. Þarna sátum við allir berleggjaðir á meðan og hlustuðum á Hollies.

Hvenær eru jólin komin? Þegar ilmurinn af rjúpnasósunni blandast við klukknahljóðið úr Dómkirkjunni kl. 6.

Sex bestu lögin?
Áfram veginn – Stefán Íslandi
Good Luck Charm – Elvis Presley
Yesterday – Bítlarnir
Ætti ég hörpu – Stefán Íslandi
Tunglskinssónatan – Ýmsir
1812 eftir Tsjækofský; ýmsar hljómsveitir, en þetta verk þarf að spila á fullu gasi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir