Dýrkaði Slade í æsku / GUMMI JÓNS

Að þessu sinni er það Guðmundur Jónsson, búsettur í Reykjavík, sem svarar Tón-lystinni. Guðmundur er fæddur 1962, alinn „...upp á Skagaströnd ásamt tveimur systkinum á ástríku heimili foreldra minna, Aðalheiðar Guðmundsdóttir og Jóns Helgasonar.“ Hann spilar á gítar og píanó og aðspurður um helstu afrek á tónlistarsviðinu svarar hann af töluverðri hógværð: „Að hafa samið nokkur lög sem hafa hreyft við fólki í gegnum tíðina, sér í lagi með félögum mínum í Sálinni hans Jóns mín.“ Jú, þetta er sá Guðmundur...

Uppáhalds tónlistartímabil? Ætli að það sé ekki tímabilið í kringum 1980, er ég ungur var og á mótunarárum. Þá runnu saman pönk og diskó, iðnaðarrokk og nýbylgja, með slatta af kántrý í heilmikinn koktel sem ég er ennþá að vinna úr í dag. Annars er allur tími skemmtilegur ef maður er að vinna við eitthvað áhugavert, þó það blási ekki byrlega við bransanum þessa dagana, þar sem hugverkum er stolið blygðunarlaust og milliliðir skafa rjómann af ört minnkandi köku.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Þessa dagana er ég að gera plötu númer tvö með rokksveitinni minni Nykur, þannig að rokk er málið, má nefna t.d. Soundgarden og Mastedon, (síðastnefnda bandið er að koma til landsins í desember til tónleikahalds). …og jú nýja platan með Don Henley fær að fljóta með líka.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Foreldrar mínir hlustuðu mikið á tónlist og spiluðu og sungu sér til dægrastyttingar. Ég var snemma kynntur fyrir öndvegis listamönnum sem ég lærði svo að meta með tímanum. Eins og Django Reinhard, Johnny Cash, Louis Armstrong, Jimmy Reeves, Lulu og MA kvartettinum og Hauki Morthens og fl.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ætli fyrsta kasettan hafi ekki verið Slayed með Slade. Ég dýrkaði það band í æsku.

Hvaða græjur varstu þá með? Ég átti forlátt Sony kasettutæki sem ég brúkaði mikið. Tók upp úr óskalagaþætti úr útvarpinu, og spilaði allar kassetturnar mínar til óbóta.

Hver var fyrsta platan sem þú óskaðir þér í jólagjöf? Eitthvað með Slade áræðanlega, ég var alveg heltekinn af bandinu um og eftir fermingu.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Það hefur aldrei skeð að tónlist eyðileggi fyrir mig dagspart. Ég skipti bara um tónlist ef ég er ekki stemmdur fyrir eitthvað sem ég heyri.

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Ég er bara ansi sáttur með framlag Svíanna í síðustu keppnum, lögin Heroes og Euphoria. Af innlendum lögum þá er Nína alltaf klassískt. Eitt af 5 bestu popplögum sem samin hafa verið á Íslandi

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Ég er steinhættur að halda partý en í den þá lágu geisladiskarnir eins og hráviði út um allt, morgunin eftir, en oftar en ekki voru það AC/DC eða Chic sem komu hreyfingu á mannskapinn.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Þögnina. Ég oftast búinn að vera að spila eitthvað kvöldið áður, enn með suð í eyrunum og þá ber að slaka á og taka það rólega.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Mig dauðlangar á U2 tónleika núna með einhverjum sem hefur fílað þá eins lengi og ég. Þeir eru að túra í Evrópu þessa dagana og í fauta formi.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Ég er fyrir löngu kominn fram úr mínum björtustu vonum á tónlistarsviðinu. Ég hef samt alltaf borið mikla virðinu fyrir tónlistarmönnum sem semja og flytja sína eigin tónlist og halda sínu striki í gegnum þykkt og þunnt. Ég sæki innblástur í svoleiðis listamenn.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Það er vonlaust fyrir mig að svara þessari spurning, það er engin ein plata sem ber þann titil. En margar góðar hafa komið út, Af Íslenskum plötum get ég t.d. nefnt, Sumar á Sýrlandi - Stuðmenn, Í gegnum tíðina - Mannakorn, Í mynd - Egó, Gæti eins verið… - Þursaflokkrinn, Hana nú - Vilhjálmur Vilhjálmsson, Himnasending - Nýdönsk og núna síðast platan með Ásgeiri Trausta – Endalaus snilld!

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? (lag/flytjandi) Ég er yfirleitt í eigin heimi og á kafi í því sem ég er að semja og hljóðrita hverju sinni, þannig að spilalistinn gæti litið svona út núna :

  1. Þjófar í paradís – Nykur
  2. A Younger man – Don Henley
  3. Örlagagaldur – Kalli Tomm
  4. Þar sem ástin í hjörtunum býr– Vestanáttin
  5. Alþýðumaðurinn – Trúboðarnir
  6. The Motherload – Mastodon

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir