Halaði Boston og Led Zep á milli herbergja / HALLDÓR ÞORMAR

Halldór Þormar Halldórsson er af árgangi 1964, uppalinn á Sauðárkróki en hefur um þó nokkurn tíma alið manninn á Siglufirði og meðal annars verið fastamaður í Útsvars-liði Fjallabyggðar síðustu árin. Halldór spilar á gítar og bassa en spurður út í helstu tónlistarafrek segir hann: „Reyndi aldrei alvarlega að feta þá slóð af virðingu fyrir tónlistinni og hef verið dyggari hlustandi en þátttakandi. Er með útvarpsþátt á FMTrölli 103,7 sem heitir Orðlaus. Það er mitt framlag í augnablikinu.“

Uppáhalds tónlistartímabil? Bæði áttundi og níundi áratugurinn svo ég segi1972-1987.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Ég er alltaf eyrnasperrtur fyrir tónlist. Jólatónlistin hefur tekið sinn toll undanfarið, en í Spotify núna er það gömul tónlist, svona frá því um og fyrir 1970, Kinks, Zombies, Steve Wonder, soul og hippatónlist.  Svo er það er endalaust hægt að velta sér upp úr gróskunni á Íslandi. Síðan er ég alltaf opinn fyrir góðu þungarokki.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Langmest klassík en líka Billy Holiday og Louis Armstrong.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Fyrsta platan sem ég keypti var með Boney M árið 1976. Á sama tíma var systir mín með í láni Boston með Boston og Physical Graffiti með Led Zep. Ég tæknilega séð hvorki keypti þær né halaði þeim niður, heldur halaði á milli herbergja.

Hvaða græjur varstu þá með? Plötuspilara og hátalara sem ég vann í bingó Í Bifröst og hét High Fidelity.  Spáði mikið í hvað það þýddi.

Hvað syngur þú helst í sturtunni? Ég er glaðasti, glaðasti ……

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Ég fæ daglega hallærisleg lög á heilann og leita í heilabúinu að einhverju skárra hallæri. T.d. skipta út Mamma þarf að djamma fyrir lagið úr Prúðuleikurunum.  Ég vil eiginlega sem minnst hugsa um þetta!

Uppáhalds Júróvisjónlagið? Horfi bara á Júró með öðru, en besta sem ég man eftir er The Spirits are Calling my Name sem var sænskt/lappneskt/júróvisíondiskó frá 2000. Ég held að það sé eina Júró-lagið sem ég er með í símanum. Nína er auðvitað frábært lag, en dálítið þreytt. 

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Það fer auðvitað dálítið eftir gestunum. Partíplaylistinn minn í Spotify nær frá Supremes til Tiesto. Glaðasti hundurinn myndi fá flesta til að syngja með, en partíið yrði bara eitt lag. Ég held að það geti flestir sameinast um Helga Björns.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Allavega ekki Sunnudagsmorgunn með Jóni Ólafs. Myndi kannski setja Comfortably Numb með Pink Floyd, eða eitthvað með Eagles. Stundum set ég tónleika í heimabíóið.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Sjá Led Zeppelin spila hvar sem er. Helst vildi ég hafa John Bonham með mér því þá yrði örugglega gott partí, en svona af þeim sem eru around þá myndi ég segja Höskuld Elefsen stjúpson minn.

Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? Mér þóttu hlébarðaskinnsbolirnir hans Rod Stewart alltaf flottir. En Robert Plant er auðvitað ímynd rokkstjörnunnar.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Erfitt en Dark Side of the Moon með Pink Floyd kemur upp i hugann.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? (lag/flytjandi) Það er mjög misjafnt frá einni viku til annarrar en helstu hittin núna eru frekar róleg stemming.
Time of the Season – The Zombies (1968)
Sweet World – John Grant og Nýdönsk (2013)
Spiral Architect – Black Sabbath (1973)
Sólmyrkvi – Dimma (tónleikar 2013)
High Hopes – Bruce Spingsteen (2013)
Lýsi ljós – Hjálmar (2009)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir