„Hefur lengi langað að fara á Bayreuth-óperuhátíðina“ / KRISTJÁN B.

Kristján B. Jónasson.  MYND: RAX
Kristján B. Jónasson. MYND: RAX

Kristján B. Jónasson fæddist 1967, alinn upp á Syðri-Hofdölum og á Sauðárkróki, en býr nú Skerjafirðinum í Reykjavík og er eigandi og útgefandi hjá Crymogeu. Kristján kann ekki á hljóðfæri þannig að hann telur sitt helsta tónlistarafrek að hafa verið plötusnúður á Hótel Mælifelli árin 1982-83.

Uppáhalds tónlistartímabil? Annars vegar 17. öld og hins vegar nútíminn, ekki síst raftónlist samtímans.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Tailor Swift, Arvo Pärt, Vocal Trance-tónlist. Tónlist frá 17. öld.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Mér fannst skemmtilegast að heyra söng og í Skagafirði voru mörg tilefni til þess. Maður heyrði sífellt söng, hvert sem farið var. Man líka eftir 45 snúninga plötum Trausta frænda míns á Hofdölum með Rolling Stones og Bítlunum sem ég hlustaði mikið á.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ég fór með fermingarpeningana mína í Byggó við Aðalgötuna og keypti mér tvær plötur vorið 1981, báðar þá nýútkomnar. Þetta voru Computer World með Kraftwerk og Duran Duran með Duran Duran.

Hvaða græjur varstu þá með? Fyrir fermingarpeningana hafði ég keypt mér sambyggðar græjur frá Technics sem ég átti svo eftir að útfæra á ýmsan hátt, til dæmis með því að bæta við nýjum pick-up í plötuspilarann og bæta við magnara og öðru kasettutæki sem ég tengdi svo saman til að spila músíkina í stórum hátölurum, úrvalshátölurum frá Electro Voice. Það var rosasánd í þessu.

Hvað syngur þú helst í sturtunni? Ekkert.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn? Rapplög geta verið svakalega leiðinleg og mikill spillir af þeim.

Uppáhalds Júróvisjónlagið (erlent eða innlent eða bæði)? Ég held mest upp á það lag sem ég man eftir sem krakki sem er All Kinds of Everything. Það fyllir mig alltaf af bernskri gleði og hleypir sól í sálina. Mér finnst alltaf eins og sólin skíni og ljúf angan berist með hafgolunni þegar ég heyri þetta lag.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Þessi spurning er talsvert á skjön við veruleikann í mínu lífi og ég held að ég sleppi því að svara henni.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Tónlist fyrri alda, frá 16., 17. eða 18. öld. Ég held að það sé eina tónlistin sem ég í raun hafi smá vit á.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Mig hefur lengi langað að prófa að fara Bayreuth-óperuhátíðina í Bæjaralandi þar sem Wagnerhátíðir eru haldnar hvert sumar. Ég kynntist Wagner hjá félögum mínum sem ég var með í háskóla í Þýskalandi en fannst þetta þá frekar óaðgengileg tónlist. Svo hef ég hlustað meira á kallinn og langar að prófa að fara á þessa miklu hátíð. En þar sem miðaverðið er ansi hátt og enginn sem ég þekki væri til í þetta, þá yrði ég að vonast til að einhver huldumey nennti að dröslast þetta með mér.

Hvaða tónlistarmann hefur þig dreymt um að vera? Ég hefði ekki viljað vera neinn annar Johann Sebastian Bach, hann er mesti snillingur allra tíma.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Computer World með Kraftwerk.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? Ég er mjög klofinn, ef ekki margklofinn, persónuleiki þegar kemur að tónhlustun og þessa dagana hlusta ég mikið á Progressive Trance eða Vocal Trance-tónlist. Ég held að það hafi litla þýðingu að nefna það lítt kunna jaðarfólk sem leggur til höfundarverk sín í þá tónhít, nöfn eins og South Pole, Aitra, Minicied, Skyline eða Sound Quelle segja að ég held engum neitt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir